Umsóknarfrestur í félagaúthlutun SVFR rann út 31. desember og er úrvinnsla hafin. Alls bárust um 2.800 umsóknir sem er rúmlega 16% aukning frá síðustu úthlutun og ljóst er að áhugi á ársvæðum félagsins heldur áfram að aukast.
Sem fyrr eru það Elliðaárnar sem tróna á toppnum sem vinsælasta veiðisvæðið en alls bárust um 1.734 umsóknir. Þar af um 1497 á laxveiði og 237 í vorveiði en 760 laxveiðileyfi voru í boði í úthlutuninni og því gífurleg umframeftirspurn. Er þetta 19% aukning á milli ára. Næst á eftir koma Korpa og Leirvogsá og undirstrikar það enn og aftur þær miklu vinsældir sem borgarárnar njóta meðal félagsmanna, enda fáir staðir sem bjóða upp á jafn aðgengilega og góða lax- og silungsveiði.
Áhugi jókst jafnframt á flestum öðrum ársvæðum SVFR og umsóknum fjölgaði víða á milli ára. Þessi þróun er afar ánægjuleg og staðfestir að félagsmenn eru í auknum mæli að sækjast eftir fjölbreyttum veiðitækifærum innan félagsins, bæði innan borgarmarka sem og utan þeirra.
Úthlutun fer fram með slembivali þar sem allir umsækjendur með gilda umsókn, sem greitt hafa félagsgjöld fyrir árið 2026, eiga jafna möguleika.
Úrvinnsla er nú í fullum gangi og stefnt er að því að ljúka henni í lok janúar. Í þeim tilvikum þar sem fleiri en einn sækjast eftir sömu dagsetningum verður boðað til útdráttar. Í byrjun febrúar ætti að liggja fyrir hvaða veiðileyfi standa eftir og í kjölfarið hefst almenn sala í gegnum vefsölu félagsins á svfr.is.
Stangaveiðifélag Reykjavíkur sendir félagsmönnum sínar bestu þakkir fyrir sýndan áhuga og fjölda umsókna. Við ítrekum að þar sem umsóknarfrestur rann út 31. desember verður ekki tekið við fleiri umsóknum. Frekari upplýsingar um framvindu úthlutunar munu berast fljótlega og eru félagsmenn hvattir til að hafa samband við skrifstofu SVFR ef spurningar vakna.