Hér má sjá lista af leiðsögumönnum Stangaveiðifélags Reykjavíkur.
Leiðsögumenn SVFR eru valdir af kostgæfni og áratuga reynsla býr á bakvið hvern þeirra ásamt þekkingu á svæðum félagsins.
Með að hafa leiðsögumann í för með sér nýtist tíminn talsvert betur enda þekkir hann staðsetningu fisksins út frá vatnsstöðu og veðri. Hann þekkir flugur, tauma og þá tækni sem brúka skal hverju sinni. Við það hámarkast árángur og upplifun veiðimanna verður ríkari. Einnig hafa þeir þekkingu á undirstöðuatriðum flugukasta og eru þeir viljugir til að aðstoða fólk að ná tökum á þeim köstum og þeim tækniatriðum sem þarf til svo vel gangi.
Bóka má leiðsögn með að senda póst á [email protected] þess efnis.
Leiðsögumenn SVFR

Heiðar Valur Bergmann (Heizi)
Ég hreinlega elska að vera við ánna og finnst alltaf jafn spennandi að fara með veiðimenn á veiðislóðir. Það skiptir mig öllu máli að viðskiptavinurinn fái sem bestu upplifun og markmiðið er alltaf að skapa góðar minningar og ævintýri. Ég kappkosta að miðla af reynslu minni og þekkingu af jákvæðni, vera til staðar í blíðu og stríðu. Mér finnst Langá og Haukadalsá í sérlegu uppáhaldi ásamt Bíldsfellið í Soginu. Ég veið lax og silung jafnt með hægri og vinstri.

Karl Lúðvíksson
Ég hef verið með flugustöng í höndunum síðan ég var 10 ára og hef ekki sleppt henni síðan. Ég byrjaði í veiðileiðsögn rétt eftir tvítugt og hef verið í því síðan með einhverjum hléum. 2015-2019 var ég staðarhaldari í Langá á Mýrum ásamt því að gæda flesta daga tímabilsins við ánna. Ég veiði bæði lax og silung þar sem mér finnst þetta mjög ólík veiði en báðar jafn skemmtilegar. Það kemur engum á óvart sem þekkir mig að heyra að mínar taugar liggja með Langá sem ég hef veitt við síðan 1977 með afa mínum heitnum. Í henni tók ég maríulaxinn og þarna hef ég átt mörg af mínum bestu augnablikum í veiði. Veiði snýst um augnablik, góðan félagsskap, náttúruna og að ganga vel um árnar okkar svo komandi kynslóðir fái að njóta þeirra líka.

Ísarr Edwins
Veiðar eru mín ástríða og er ég búin að vera að veiða síðan ég var borin í barna vagni niður í Rauðagíg í Veiðivötnum 6 mánaða gamall. Á sumrin geri ég lítið annað en veiða, bæði silung og lax. Ég er búin að vera í veiði leiðsögn í nokkur ár en síðastliðin tvö ár einungis í Langá. Það að vera við ánna í þessu einstaka umhverfi og að aðstoða veiði menn/konur að lesa ánna og sýna þeim hvar og hvernig best væri að fá töku, finnst mér ótrúlega gefandi og geri mitt besta til að þau sem hjá mér eru njóti veiðanna og tímanns við ánna eins vel og mögulegt er. Ég hef gaman af lífinu og stunda snjóbretti í Evrópu á veturnar en Ísland og veiðarnar eiga hug minn og hjarta á sumrin.

Tryggvi Þór Hilmarsson
Það er þrennt sem þarf að vera til staðar svo veiðiferð lukkist. Góður félagsskapur, framúrskarandi aðbúnaður og svo þarf laxinn auðvitað að bíta á! Um árabil hef ég starfað við leiðsögn fyrir SVFR og lagt mig fram við að veiðiferðir heppnist vel. Það er gefandi og gaman að hjálpa veiðimönnum að njóta sín og hámarka árangurinn við veiðar. Lengst af hef ég starfað í Langá sem er ótrúlega fjölbreytt og falleg laxveiðiá, sem geymir marga og magnaða veiðistaði, en einhverjir þeirra hafa meira að segja ekki ratað inná veiðikort. Sjáumst við bakkann!

Árni Friðleifsson
Veiddi minn fyrsta lax 1978, þá tíu ára gamall og hef síðan nánast eytt öllum sumrum á Íslandi við stangveiðar. Hef verið leiðsögumaður á svæðum SVFR í tæp tuttugu ár. Jafnt með íslenska og erlenda veiðimenn. Það er ótrúlega gefandi að aðstoða veiðimenn og upplifa sanna gleði þegar góður veiðidagur er að kveldi kominn. Langá á Mýrum og Haukadalsá hafa verið minn heimavöllur síðustu árin. Reynsla, gæði og gaman er það sem ég stend fyrir.

Þorsteinn Gauti
Ég heiti Þorsteinn Gauti og er 25 ára. Ég hef starfað sem leiðsögumaður í um sex ár eða frá því að bílprófið var klárt. Ég hef verið nokkurs konar staðargæd í Straumfjarðará og má segja að ég hafi fylgt með ánni til Stangó fyrir þrem árum. Ég elska einfaldleikann sem felst í því að lífið snúist um hvernig hægt er að setja í næsta fisk og að plana hvernig best sé að njóta þess að vera við árbakkann.

Gylfi Kristjánsson
Alveg frá því að ég man eftir mér hefur allt snúist um veiði. Fyrsta flugufiskinn fékk ég í Laxá í Mývatnssveit og hafa urriðasvæðin í Laxá, frá upptökum til ósa verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan þá. Ég hef starfað sem leiðsögumaður frá 17 ára aldri. Leiðsögumanna starfið er gríðarlega gefandi og algjör forréttindi að fá að eyða sumrinu á bakkanum með veiðimönnum.

Rögnvaldur Örn Jónsson
Ég hef verið leiðsögumaður hjá Stangveiðifélagi Reykjavíkur í mjög mörg ár. Einnig hef ég veitt öll svæði félagsins og þekki þau öll afar vel. Hef mest verið að vinna við leiðsögn í Langá hin síðustu ár þar sem það er mín uppáhaldsveiðiá og þekki ég þar alla merkta sem og ómerkta veiðistaði sem leynast víða. Mitt markmið í leiðsögn er að mínir viðskiptavinir njóti veiðiferðarinnar sem allra best og njóti þess að vera úti í náttúrinni að kasta fyrir fisk í fallegum strengjum og breiðum.

Karl Andrés Gíslason
Ég hef verið svo heppinn að njóta þeirra forréttinda að stunda stangveiði frá því að ég man eftir mér. Frá árinu 2016 hef ég sinnt veiðileiðsögn fyrir SVFR, bæði í lax- og silungsveiði. Á þeim tíma hef ég bæði veitt sjálfur og leiðsagt á mörgum veiðisvæðum SVFR og ber þar helst að nefna Langá, Haukadalsá og Laxá í Mývatnssveit. Stangveiði hefur alla tíð verið mitt helsta áhugamál enda fullkominn leið til þess að njóta náttúru Íslands í góðum félagsskap.
Leiðsögn – verð
Innifalið er leiðsögn og akstur milli ársvæða. Hámark þrír veiðimenn í bíl ásamt leiðsögumanni.
Innifalið er leiðsögn og akstur milli ársvæða. Hámark þrír veiðimenn í bíl ásamt leiðsögumanni.
Í einstaka tilfellum þar sem ekki er hægt að útvega leiðsögumann á staðnum bætist við fast akstursgjald sem er skoðað í hverju tilfelli fyrir sig. Stangarverð er birt með fyrirvara um innsláttarvillur og breytingar.