Miðsvæðið í Laxá í Aðaldal til SVFR

SVFR og Miðsvæðið - undirskrift

Ármann Kristjánsson, umsjónarmaður Miðsvæðisins, og Ragnheiður Thorsteinsson, formaður SVFR, við undirritun samningsins. 

Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR) hefur samið um sölu veiðileyfa á Miðsvæðinu í Laxá í Aðaldal. Laxá er eitt af þekktustu lax- og urriðaveiðisvæðum landsins og bætist nú við öflugt úrval veiðisvæða SVFR og eykur enn fjölbreytni fyrir félagsmenn.

Miðsvæðið nær yfir veiðistaði á Jarlsstöðum, Hjarðarhaga, Tjörn og Ytra-Fjalli. Aðgengi er frábært og hægt er að keyra að öllum stöðum. Margir veiðimenn þekkja nöfnin á þessum helstu laxastöðum enda fornfrægir stórlaxastaðir eins og Óseyri, Dýjaveitur, Breiðeyri, Símastrengur og Tjarnarhólmaflúð, á svæðinu. Helstu urriðastaðir eru Höskuldsvík, Dýjaveitur og Kraunapollar.

„Það er mikill heiður að bæta jafn sögufrægu veiðisvæði við okkar framboð. Laxá er kölluð drottning íslenskra laxveiðiáa, og ekki af ástæðulausu, og það er afar ánægjulegt að geta boðið félagsmönnum okkar aðgang að þessu spennandi ársvæði. Við hlökkum til að standa vörð um svæðið og vinna áfram í anda þeirra sem hafa haldið utan um þessa einstöku á um árabil.“ segir Ragnheiður Thorsteinsson, formaður SVFR.

Með þessari viðbót styrkir SVFR stöðu sína og tryggir félagsmönnum sínum enn fjölbreyttara úrval og aðgang að nýju, kraftmiklu og söguríku svæði á Norðurlandi. Opnað hefur verið fyrir úthlutun til félagsmanna SVFR á heimasíðu Stangaveiðifélags Reykjavíkur og verður hún opin til og með 31. desember. Hægt að sækja um veiðileyfi á öllum ársvæðum SVFR, þar með talið Miðsvæðinu í Laxá.

 

By Ingvi Örn Ingvason Fréttir