Nýr samstarfssamningur um vatnasvæði Flekkudalsár milli Veiðifélags Fellsstrandar og Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) var undirritaður á dögunum og gildir út veiðisumarið 2029. Samningurinn tryggir áframhaldandi aðgang félagsmanna SVFR að einni eftirsóknarverðustu sjálfsmennskuám á Vesturlandi.
Flekkudalsá, eða Flekkan eins og hún er gjarnan kölluð, hefur verið í umsjón SVFR síðan árið 2020 og hefur notið mikilla vinsælda meðal félagsmanna SVFR. Flekkan er laxveiðiá sem býður upp á fjölbreytta og skemmtilega veiði ásamt afar vel útbúnu veiðihúsi í sjálfsmennsku. Ásamt laxi er einnig hægt að veiða vænar sjóbleikjur, sem gerir Flekkuna að enn skemmtilegra veiðisvæði.
“ Við erum virkilega ánægð með áframhaldandi samstarf við Veiðifélag Fellsstrandar, sem hefur alltaf verið einstaklega gott. Flekkudalsá á sérstakan stað í hjörtum margra félagsmanna enda fallegt, friðsælt og fjölskylduvænt veiðisvæði sem margir sækja í ár eftir ár,“ segir Ragnheiður Thorsteinsson, formaður SVFR
Undanfarin ár hefur verið unnið hörðum höndum að því að bæta aðstöðu veiðimanna við veiðihúsið, meðfram ánni og á veiðistöðum. Þessar endurbætur hafa aukið þægindi og gert dvöl veiðimanna við Flekkudalsá enn ánægjulegri.
Flekkudalsá er þriggja stanga, um 20 km löng dragá sem á upptök sín á hálendinu í Klofningsfjallgarði og fellur til sjávar í Hvammsfjörð vestan við bæinn Ytra-Fell á Fellsströnd. Hún rennur í gegnum stórbrotið og skógi vaxið landslag Flekkudals og hefur lengi verið talin ein fegursta og fjölbreyttasta laxveiðiá landsins. Vatnasvæðið nær yfir Flekkudalsá, Kjarlaksstaðaá og Tunguá, sem saman bjóða upp á einstaka veiðiupplifun í náttúrufegurð Vesturlands.