Flekkudalsá áfram hjá SVFR

Ragnheiður og Sigurður Rúnar Friðjónsson, formaður veiðifélags Fellsstrandar, við undirritun samningsins.

Nýr samstarfssamningur um vatnasvæði Flekkudalsár milli Veiðifélags Fellsstrandar og Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) var undirritaður á dögunum og gildir út veiðisumarið 2029. Samningurinn tryggir áframhaldandi aðgang félagsmanna SVFR að einni eftirsóknarverðustu sjálfsmennskuám á Vesturlandi.

Flekkudalsá, eða Flekkan eins og hún er gjarnan kölluð, hefur verið í umsjón SVFR síðan árið 2020 og hefur notið mikilla vinsælda meðal félagsmanna SVFR. Flekkan er laxveiðiá sem býður upp á fjölbreytta og skemmtilega veiði ásamt afar vel útbúnu veiðihúsi í sjálfsmennsku. Ásamt laxi er einnig hægt að veiða vænar sjóbleikjur, sem gerir Flekkuna að enn skemmtilegra veiðisvæði.

Við erum virkilega ánægð með áframhaldandi samstarf við Veiðifélag Fellsstrandar, sem hefur alltaf verið einstaklega gott. Flekkudalsá á sérstakan stað í hjörtum margra félagsmanna enda fallegt, friðsælt og fjölskylduvænt veiðisvæði sem margir sækja í ár eftir ár,“ segir Ragnheiður Thorsteinsson, formaður SVFR

Undanfarin ár hefur verið unnið hörðum höndum að því að bæta aðstöðu veiðimanna við veiðihúsið, meðfram ánni og á veiðistöðum. Þessar endurbætur hafa aukið þægindi og gert dvöl veiðimanna við Flekkudalsá enn ánægjulegri.

Flekkudalsá er þriggja stanga, um 20 km löng dragá sem á upptök sín á hálendinu í Klofningsfjallgarði og fellur til sjávar í Hvammsfjörð vestan við bæinn Ytra-Fell á Fellsströnd. Hún rennur í gegnum stórbrotið og skógi vaxið landslag Flekkudals og hefur lengi verið talin ein fegursta og fjölbreyttasta laxveiðiá landsins. Vatnasvæðið nær yfir Flekkudalsá, Kjarlaksstaðaá og Tunguá, sem saman bjóða upp á einstaka veiðiupplifun í náttúrufegurð Vesturlands.

Nánar um Flekkudalsá

By Ingvi Örn Ingvason Fréttir