Góðan daginn.
Nú eru allflestar ár félagsins búnar að opna og óhætt að segja að veiðin sé talsvert undir væntingum.
Langá er komin í 29 laxa frá opnun,rólegt en samt eru menn að sjá slatta af fiski á svæðinu. Til að mynda gengu 47 laxar í gegnum teljara í gær og við bindum vonir við að það sé forsmekkurinn að næsta stóra straum 13 júlí og laxinn hellist inn í næstu viku og vikunni þar á eftir.
Haukan er komin í 12 laxa, frekar rólegt en Haukan er síðsumarsá og við bindum vonir við veiðina þar í sumar. Við vekjum athygli á að það eru lausar stakar stangir í Haukunni 6-7/7 á tilboðsverði í vefsölu, sjá hér:
Sandá í Þistilfirði opnaði 24.júní, hefðbundin opnun fyrir norðan, fáir en stórir fiskar og þar á meðal einn 100cm höfðingi, Sandá er komin í 11 laxa og af þeim er einn smálax!
Elliðaárnar hafa farið rólega af stað, hörku göngur samt í gegnum teljara og til að mynda eru 40 fiskar búnir að ganga í gegnum teljarann frá miðnætti. Elliðaárnar eru komnar í 43 laxa.
Leirvogsá opnaði 25.júní og þar sáu árnefndarmenn slatta af fiski en gekk ekkert að fá hann til að taka, 4 laxar og 4 sjóbirtingar hafa veiðst í ánni frá opnun.
Laugardalsá opnaði 22.júní, þar veiddust 3 fiskar í opnun, allt smálax og veiddist allt töluvert fyrir neðan teljara, vonandi veit á gott fyrir sumarið.
Gljúfurá fer mjög rólega af stað, vonandi rætist úr laxagöngum þar í stækkandi straumi. Enginn lax skráður í bók enn sem komið er, 2 sjóbirtingar skráðir.
Korpa er líka róleg, 3 laxar hafa veiðst frá opnun.
Miðá opnaði núna 1. júlí, þar eru 3 laxar komnir í bók og einhverjar bleikjur, gefur ágætis von fyrir sumarið því Miðá er síðsumarsá.
Flekkan opnaði 1.júlí, engar fréttir þaðan enn.
Rífandi gangur er búinn að vera á urriðasvæðunum fyrir norðan, Laxárdalurinn er kominn í 400 fiska og er gríðarlega mikið af stórum urriðum á sveimi þar núna, 65-72 cm fiskar að veiðast liggur við daglega.
Mývatnssveitin er komin í 1402 fiska, flott veiði og gríðarlega flottir fiskar að veiðast þar líka, þó nokkrir 68-71 cm fiskar.