Það er varla hægt að stinga niður penna þessa vikuna nema að minnast á Haukadalsá og tragedíuna þar. SVFR,veiðifélag Haukadalsár og Landsamband Veiðifélaga brugðust strax og við og nú vonum við bara að þetta sé ekki jafn víðtækt og var óttast í fyrstu. Vonandi fara ráðamenn þjóðarinnar að vakna upp og átta sig á því að þessi óþverraiðnaður sem sjókvíaeldið er á enga samleið með villtum laxa og silungastofnum þessa lands.
Að öðru, Langá er að skríða yfir 400 laxana núna, nóg af fiski í ánni en takan dræm. Ágústdrunginn fer nú vonandi að léttast af fiskinum og takan að bresta á.
Gljúfurá er að rétta úr kútnum eftir hörmulega byrjun, menn að sjá fiska um alla á og veiðin að glæðast.
Sandá í Þistilfirði er að nálgast 200 laxa, nokkuð jöfn og góð veiði hefur verið þar í sumar, meðalþyngd veiddra laxa er 3,7kg.
Elliðaárnar eru komnar í 527 laxa, gríðarlegt magn af fiski er í ánum.
Laugardalsá er í nokkuð góðum málum, mikil fiskgengd hefur verið í ána og veiðin að glæðast, hún er komin í 70 laxa núna.
Leirvogsáin er að glæðast, vatnsleysi hrjáði hana framan af sumri en nú er hún í fínu vatni og nóg af fiski í ánni, hún er komin í 180 laxa í dag.
Korpan hefur líka verið með rólegra móti í sumar, veiðin er komin í 80 laxa en ætti að fara að glæðast með vaxandi vatni.
Flekkudalsá er komin í 45 laxa, nú er besti tíminn í ánni að renna upp og verður spennandi að sjá í hverju hún endar.
Miðá í Dölum er komin í 33 laxa, haustveiðin hefur oft verið drjúg í Dölunum og verður gaman að sjá veiðitölur eftir sept, bleikjuveiðin hefur aftur á móti verið með ágætum.
Flókadalsá í Fljótum er heldur betur að koma sterk inn, 513 bleikjur hafa veiðst nú þegar sem er gríðargóð veiði, bleikjurnar hafa einnig verið af góðri stærð.
Gufudalsá er komin yfir 400 bleikjur, fínasta veiði en fiskur frekar smár.
Vatnsdalsá í Vatnsfirði er að koma inn núna með ágætis veiði, vatnslítil framan af sumri en rigningin gerir kraftaverk, 10 laxar komnir í bók og 80 bleikjur.
Brúaráin er alltaf að gefa fisk, þar höfum við á tilfinningunni að skráningum sé ábótavant og viljum við því brýna fyrir veiðimönnum sem sækja Brúará að skrá samviskusamlega.
Urriðasvæðin fyrir norðan hafa verið mjög flott þetta sumarið, Laxárdalur er að loka í dag og þar er heildarveiðin um 800 fiskar, Mývatnssveitin lokar svo 25.8, verður gaman að sjá lokatölu þar.
Þverá í Haukadal er komin með 10 fiska í bók, var mjög vatnslítil framan af sumri en er að rétta úr kútnum núna, þar er einnig okkar tilfinning að skráningu sé ábótavant og hvetjum við því veiðimenn til að skrá samviskusamlega.
Sandá í Þjórsárdal er svæði sem undirritaður er mjög spenntur fyrir núna þegar halla fer að hausti, sérstaklega ef það rignir eitthvað að ráði. Einhverjir dagar lausir ennþá í lok ágúst og svo í sept.