Veiðifréttir vikunnar

Góðan daginn.

Laxveiðin er frekar róleg, það virðist vanta alvöru veðrabreytingu (lesist rigning) til að koma hreyfingu á fiskinn.

Langá er með vikuveiði 16-23/7 upp á 93 laxa, hægur stígandi í veiðinni og koma góðir dagar inn á milli, nægur fiskur í ánni.

Góður gangur á urriðasvæðunum fyrir norðan,  jöfn og góð veiði.

Áfram flott veiði í Efri Flókadalsá í Fljótum, áin komin í 250 bleikjur og besti tíminn eftir í bleikjunni.

Leirvogsá er frekar róleg, koma ágætir dagar inn á milli, núna vantar meiri rigningu.

Korpan líka frekar róleg, slatti af fiski gengið í hana en veiðin með rólegra móti.

Sandá í Þistilfirði er komin í 70 laxa, hitinn fyrir norðan hefur sett strik í reikninginn með veiðina þar. Vatnshiti fór hæst í 21°, nú er að komast jafnvægi á veðrið og vonandi tekur veiðin við sér í kjölfarið.

Elliðaárnar eru algjörlega bláar af laxi, tæplega 3.000 laxar gengnir í gegnum teljara, vikuveiðin 14-20.7 er 100 laxar.

Flekkan er aðeins að lifna við, vatnsleysi hrjáir hana þó eins og aðrar Dalaár.

Fínasta sjóbleikjuveiði hefur verið í Vatnsdalsá í Vatnsfirði, eitthvað af laxi hefur sést þar en enginn verið skráður eins og er .

Miðá í Dölum er á fínasta róli í sjóbleikjunni en rólegra er í laxinum, vatnsleysi þar eins og annars staðar í Dölunum.

Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi, þar er enn að ganga inn nýr lax á hverjum degi en aðstæður til veiða eru víst mjög erfiðar vegna vatnsskorts, vonandi fer að rigna!

Gljúfurá í Borgarfirði, loksins segja sumir er farinn að sjást lax í ánni, Gljúfuráin hefur farið óhemju seint af stað en einhver batamerki eru á henni núna.

By Hjörleifur Steinarsson Fréttir