Veiðifréttir vikunnar.

Grímshólshylur er einn besti veiðistaðurinn í Laugardalsá

Góðan daginn.

Við byrjum á jákvæðum fréttum úr silungsveiðinni.
Efri Flókadalsá í Fljótum er heldur betur að lifna við þessa dagana, síðasta holl var með yfir 40 bleikjur og mikið af því voru vænar 40-45 cm bleikjur.
Stærsta bleikjan var 52 cm, samkvæmt okkar heimildum þá er bleikjan vel dreifð um ána og nýr fiskur að ganga á hvejum degi. Áin er seld fram í september byrjun, þá eru nokkur holl laus.

Urriðasvæðin fyrir norðan eru að gefa flotta veiði, Laxárdalurinn er kominn í 578 fiska og nóg eftir af tímabilinu. Til fróðleiks þá er hér grein eftir Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðing hjá Laxfiskum sem er með verkefni í gangi í Laxárdalnum: Laxfiskar grein
Mývatnssveitin er komin í 1666 fiska, flott veiði þar ennþá og áin óvenju tær.

Snúum okkur að laxinum, jákvæðu fréttir vikunnar bárust úr Laugardalsá: “Til fróðleiks er hér skjáskot af laxagöngum í Laugardalsá. Laxinn er að mæta í Laugardalsá í töluverðum mæli undanfarna daga. Gangan til þessa er sú næst mesta fram á þennan dag frá því að myndavélarteljari var settur í ána 2018 ( sjá viðhengi).”

Á öðrum vígstöðvum í laxinum er tiltölulega rólegt, þó nokkuð af fiski að ganga í Langá en takan mætti vera betri, Haukan er róleg, mikið af hnúðlaxi neðarlega í henni og lítið hægt að gera í þeim ófögnuði. Sandá í Þistilfirði hefur hrapað í vatni í hitum síðustu viku, var komin í 8 rúmmetra og vatnshitinn var kominn í 18°-21°c!

Við kveðjum þessa veiðiviku með þá von í hjarta að rigningin komi nú og lagi vatnsstöðuna í ánum okkar (helst að rigna bara á nóttunni takk) og laxinn finni gamla góða tökustuðið og þá verða allir í stuði.

By Hjörleifur Steinarsson Fréttir