Veiðiferð með meistara Árna Bald í Langá 10-12. júlí

Stórveiðimaðurinn Árni Baldursson gekk í SVFR í vetur eftir 30 ára aðskilnað og af því tilefni höfum við sett í sölu sérstakt gestgjafaholl með meistaranum á frábærum tíma eða 10.-12. júlí. Þetta er sá tími sem laxinn gengur á fullum þunga upp Langá og jafnframt einn skemmtilegasti tíminn í ánni.

Árni þekkir ána eins og lófann á sér eftir að hafa stundað og selt í ána um árabil hér á árum áður eins og frægt er orðið í Sporðakastaþætti um Langá sem gerður var fyrir rúmum 30 árum. Fjölmargir innlendir og erlendir veiðimenn hafa kynnst Langá í gegnum Árna.

Þegar veiðin hefst mun Árni verða veiðimönnum innan handar, eins og tækifæri gefst, og gefa góð ráð og ekki ósennilegt að ein og ein veiðisaga verði sögð á kvöldin. Þetta er uppskrift að ógleymanlegri veiðiferð!

Það mun fara vel um veiðimenn í Langárbyrgi en síðasta sumar var tekin í notkun viðbygging með sex nýjum herbergjum, auk þess sem húsgögn voru uppfærð og herbergi máluð, og því auðvelt fyrir veiðimenn sem deila stöng að vera í sérherbergi.  Lux veitingar munu svo sjá til þess að gestir fái aðeins fyrsta flokks upplifun í mat og þjónustu í húsi.

Hægt er að panta stöng beint í gegnum vefsölu eða með því að senda okkur tölvupóst á svfr@svfr.is.

Með veiðikveðju,
SVFR

By Ingimundur Bergsson Fréttir