Vatnsdalsá í Vatnsfirði bætist í hópinn!

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að Vatnsdalsá í Vatnsfirði verður í boði fyrir félagsmenn SVFR næstu árin en skrifað var undir samning við Flugu og net ehf. í vikunni.

Vatnsdalsá í Vatnsfirði er lítil tveggja stanga á sem býður upp á bæði lax- og bleikjuveiði á frábæru verði en stangardagurinn mun kosta á bilinu 30.000-65.000 kr. fyrir félagsmenn. Við teljum að ársvæðið henti sérlega vel fyrir fjölskyldur eða tvo til fjóra veiðifélaga. Aðeins er heimilt að veiða á flugu og skal öllum laxi sleppt aftur.

Efri hluti árinnar rennur úr Öskjuvatni um 2,5 km. leið í Vatnsdalsvatn og rennur neðri hluti árinnar úr Vatnsdalsvatni um 1 km. til sjávar. Heimilt er að veiða með tvær stangir til viðbótar í vatninu. Áin hefur átt sína aðdáendur í gegnum árin en síðustu tvö ár hefur hún lítið verið veidd. Áin hefur verið að skila um 30-110 löxum og um 100-200 bleikjum á sumri eftir ástundun. Eitthvað veiðist líka af sjóbirting í neðri ánni.

Með ánni fylgir veiðikofinn Stöng sem knúinn er áfram af sólarrafhlöðu. Veiðikofinn er lítill en notalegur með frábæru útsýni. Þar er að finna svefnaðstöðu fyrir tvo til fjóra, með tvíbreiðu rúmi og tvöföldum svefnsófa, einfalt eldhús með ísskáp og gashellu í opnu alrými með salerni inn af. Gott grill er á staðnum.

Rétt er að benda á að Flókalundur er í göngufæri en þar er flott tjaldstæði auk sumarhúsabyggðar sem er í útleigu hjá stéttarfélögum. Í nágrenninu er einnig að finna kaffihúsið Brjánslæk þar sem hægt er að kaupa kjöt á grillið, beint frá býli, og má sjá úrvalið þeirra á brjanslaekur.is.

Okkur hlakkar til samstarfsins við þá Jóhann Pétur Ágústsson og Einar Birki Einarsson en þeir eru eigendur Flugu og nets ehf. og fara með veiðiréttinn í ánni.

Félagsmenn geta sótt um daga í ánni þegar félagsúthlutun hefst í byrjun desember.  Einnig á eftir að skipa árnefnd en áhugasamir geta sótt um með því að sækja um hér.

 

 

Hér má sjá veiðitölur 2009 til 2022:

• 2009: 107 laxar og 69 bleikjur
• 2012: 30 laxar og 36 bleikjur
• 2019: 21 laxar og 216 bleikjur
• 2020: 41 laxar og 94 bleikjur
• 2021: 54 laxar og 107 bleikjur
• 2022: 71 laxar og 86 bleikjur

By Ingimundur Bergsson Fréttir