Úthlutun til félagsmanna á lokametrum

Dregið um holl á skrifstofu SVFR

Undanfarnar vikur hefur skrifstofa SVFR unnið hörðum höndum við úrvinnslu umsókna sem bárust í úthlutun fyrir næsta veiðisumar. Ferlið er nú á lokametrunum og búið er að afgreiða flest ársvæði og senda út greiðsluseðla til þeirra sem fengu úthlutað veiðileyfi. Stefnt er að því að allri úrvinnslu sé lokið fyrir mánaðarmót.

Eins og við er að búast bárust fleiri en ein, og fleiri en tvær, umsóknir í eftirsóttustu dagana í flestum af okkar ársvæðum. Umsóknir eru þá flokkaðar eftir styrkleika og því fleiri A-leyfi sem liggja að baki umsókn, því sterkari er hún og meiri líkur á úthlutun. Þegar tvær eða fleiri jafnsterkar umsóknir sækja um sömu dagsetningar þarf að grípa til útdráttar, sé hvorugur aðilinn sveigjanlegur, líkt og reglur SVFR kveða á um.

Undanfarna daga hafa þónokkrir félagsmenn gert sér ferð á Suðurlandsbrautina til að taka þátt í útdrætti og er ávallt mikil spenna í loftinu þegar dregið er úr spilastokknum um hver endar með hæsta spilið. Í einu tilfelli voru fjórir aðilar að draga  um sama hollið. Sá fyrsti dró drottningu, svo kom gosinn, svo kóngurinn en fjórði aðilinn endaði á því að draga ásinn og fékk þar af leiðandi hollið. Voru allir viðstaddir sammála því að þeir hafi aldrei upplifað annað eins í útdrætti.

Allir sem fá úthlutað veiðileyfi fá sendan greiðsluseðil í heimabankann og tölvupóst á það netfang sem skráð er í umsókninni. Þeir sem ekki fá úthlutað fá einnig tölvupóst og geta þá tryggt sér þau veiðileyfi sem verða í boði þegar almenn sala hefst í byrjun mars.

Á morgun, föstudaginn 23. janúar klukkan 12:00, verður svo dregið úr umsóknum í Elliðaárnar og óskum við eftir 2–3 félagsmönnum til að vera viðstaddir. Útdrátturinn fer fram á skrifstofu SVFR að Suðurlandsbraut 54.

SVFR þakkar félagsmönnum kærlega fyrir frábæra þátttöku, þolinmæði og jákvætt hugarfar í þessu ferli, vandað verklag skilar ánægðari veiðimönnum.

By Ingvi Örn Ingvason Fréttir