Uppgjör sumarsins og samantekt frá urriðasvæðunum fyrir norðan.

Góðan daginn.

Nú er tímabilinu lokið á urriðasvæðum SVFR Laxá í Mývatnssveit og Laxá í Laxárdal, þá er tímabært að taka smá yfirreið yfir veiðitölur og sumarið.

Mývatnssveitin endaði í 2678 urriðum í ár miðað við 3843 í fyrra. Munar 1165 fiskum, veiðin var erfiðari í ár og margir þættir sem spiluðu þar inn í.

Margir vilja meina að þar sem áin var óvenju tær mest allt sumarið hafi fiskurinn verið tregari í töku og varari um sig, svo kom hið venjubundna slýrek í ágúst.

Áhugaverð tölfræði á milli ára er einnig hlutfall bleikju í afla, í fyrra veiddust 65 bleikjur en einungis 10 bleikjur í ár. einnig er áhugavert að skoða sleppihlutfall fisks, 2024 var 82% urriða sleppt en 75% í ár.

 

 

 

 

Laxárdalurinn endaði í 766 urriðum og 36 bleikjum, 2024 veiddust 869 urriðar og 22 bleikjur.

Góður stígandi hefur verið í veiðinni í Laxárdal núna undanfarin ár, niðursveiflan í Dalnum er ekki nándar jafnmikil og og í Mývatnssveitinni.

Gríðarlega mikið og gott starf hefur verið unnið af árnefndinni við að merkja fiska og verður  gaman að skoða niðurstöður úr því verkefni, töluvert sást af 50-55cm fiski í veiðinni í fyrra og í sumar sem bendir til góðrar nýliðunar. Þessir fiskar eru hnöttóttir og eru oft kallaðir rugbý boltar, ótrúlega skemmtilegir á stöng.

Vinsældir urriðasvæðana eru sífellt að aukast og ásókn orðin mikil, sérstaklega í Mývatnssveitina en Laxárdalurinn er farinn að bókast ansi þétt líka.

Það er mikið metnaðarmál hjá okkur í SVFR að halda vel utan um þessi svæði og gefa íslenskum stangveiðimönnum tækifæri á að upplifa þessa paradís sem þessi svæði eru.

 

Svo í lokin má geta þess að endurbókunarpóstar fyrir urriðasvæðin verða sendir í dag, endurbókun stendur til 20 október og hvetjum við veiðimenn til að endurbóka sína daga í paradís.

Tight lines!

 

 

By Hjörleifur Steinarsson Fréttir