Veiðitímabilið 2025 á enda

Þá er veiðitímabilinu formlega lokið í öllum ám félagsins.

Síðasta föstudag birtum við samantekt frá urriðasvæðunum fyrir norðan og nú er komið að því að rýna í tölur í fleiri ársvæðum.

Laugardalsá kom sterk inn á köflum í sumar og ekki hafa verið fleiri göngur skráðar síðan teljarinn var settur niður árið 2018. Veiðimenn nutu góðs af því að áin væri full af fiski og talsvert fleiri laxar veiddust þetta tímabilið eða 145 á móti 124 í fyrra. Þá var september flottur með 55 laxa skráða, þar af eitt stykki risavaxið skrímsli sem mældist 96 cm. og 8,5 kíló og var jafnframt sá stærsti í ár.

Guðrún Theodórsdóttir landaði þessum 96 cm. risavaxna höfðingja í Blámýrarfljóti 8. september sl.

 

Gljúfurá fór löturhægt af stað og var tíðindalítil framan af. Laxinn var líka mun seinna á ferðinni heldur en árið á undan en til samanburðar veiddist sá fyrsti í sumar 12. júlí á meðan 32 laxar voru komnir á land á sama tíma 2024. Það verður einfaldlega að segja eins og er að júlí var arfaslakur  í laxveiðinni með aðeins 12 slíka skráða. Öllu meira líf var í sjóbirtingsveiðinni svo ástandið hefði svo sannarlega getað verið verra. Blessunarlega lifnaði yfir hlutunum síðla sumars og ágúst og september skiluðu fínni veiði og voru í raun á pari við síðasta ár. Áin endaði í 117 löxum sem er talsvert langt frá fyrra ári þegar þeir voru 191.

Flekkudalsá  átti erfitt uppdáttar þetta sumarið sökum mikils vatnsleysis og endurspeglast það í tölfræðinni en aðeins veiddust 55 laxar samanborið við 148 í fyrra. Við bindum miklar vonir við að þessi fallega á nái sér á strik á næsta tímabili, enda umhverfið einstakt og áin alltaf ánægjuleg heim að sækja.

Það má hugga sig við að fegurð Flekkudalsár hefur ekki fölnað þrátt fyrir erfitt sumar.


Sandá
í Þistilfirði
endaði í 321 laxi samanborið við 381 lax í fyrra. Miklir hitar um miðbik sumars settu strik í veiðina þar sem vatnshitinn fór hæst í 19°c. Einn risi veiddist í hollinu 13.-16. september, fiskur sem áætlaður er um 24-25 pund.

Jón Hermannsson með tröllið!

Miðá í Dölum var róleg í laxveiðinni framan af, of mikil veðurblíða er alltaf ávísun á vatnsleysi og Dalaárnar fengu að finna fyrir því. Bleikjuveiðin var þó með ágætum framan af sumri og eru rétt rúmlega 200 bleikjur skráðar í bók. Laxveiðin endaði í 84 löxum og óhætt að segja að september hafi verið veiðimönnum góður í Miðánni en 43 laxar veiddust í september og þar af tveir 100 cm. og yfir. Þó nokkrir 80-95 cm. fiskar veiddust líka svo þeir stóru voru svo sannarlega á sveimi.

 

Jóhann Unnar Sigurðsson með 105 cm. fisk úr Hamarshyl í Miðá.


Haukadalsá í Dölum
er svo sannarlega búin að festa sig í sessi landsmanna eftir fréttir sumarins og engu logið þegar sagt er að tímabilið hafi verið viðburðaríkt. Fyrst ber að telja hnúðlaxaófögnuðinn sem tröllreið öllu fram eftir sumri, svo komu eldislaxar og norskir kafarar og loks vatnsleysi og rafsuðusól. Þrátt fyrir allt endaði Haukan í 289 löxum í sumar. Ekki var mikið af tveggja ára laxi í veiðinni en þó veiddist einn 100 cm. í september.  

Ragnheiður Thorsteinsson, formaður SVFR, lét sitt ekki eftir liggja í sumar og landaði 100 cm. fisk í Haukadalsá.


Gufudalsá í Gufudal
endaði í 531 bleikju, 7 löxum og 8 sjóbirtingum. Sumarið var gott í Gufudalnum, mikil veðurblíða og ágætis fiskgengd þó bleikjan hafi verið heldur smá en engu að síður mjög fínar bleikjur inn á milli.

Þverá í Haukadal endaði í 16 löxum og einum sjóbirtingi og skyldi engan undra í ljósi vatnsleysisins sem hrjáði hana stærstan hluta tímabilsins. Síðla sumars var komið töluvert af laxi í ána en hann var mjög tregur til töku. Það virðist vera þema sumarsins í laxveiðinni, ágætis magn af fiski víðast hvar en takan mjög treg.  

Már Eyfjörð Harðarson tók þessa fallegu mynd er hann var við veiðar í ágúst.


Langá
á Mýrum endaði í 714 löxum. Hún fór rólega af stað en rétti svo úr kútnum er líða tók á sumarið. Það vantaði ekki fiskinn í Langá í sumar en rétt eins og víðar var fiskurinn gríðarlega tregur til töku. Það gengu 1281 fiskar upp um teljarann í Skuggafossi og líklegt verður teljast annað eins magn hafi gengið fossinn sjálfan, fossinn er engin hindrun orðinn fyrir fiskinn.  Líkt og árið 2023 var september mjög sterkur í veiðinni í Langá, af 714 veiddum löxum veiddist 191 lax í september.
 

By SVFR ritstjórn Fréttir