Elliðaárnar léku stórt hlutverk þegar Neyðarkallinn 2025 var formlega afhentur Forseta Íslands, frú Höllu Tómasdóttur, nú á dögunum. Athöfnin fór fram fyrir ofan veiðistaðinn Hraunið þar sem vaskur hópur straumvatnsbjörgunarmanna ferjaði Neyðarkallinn yfir ánna og færði Forsetanum, og Birni eiginmanni hennar, í táknrænni athöfn í þessu fallega umhverfi í hjarta Reykjavíkur.
Forsetinn ítrekaði mikilvægi sjálfboðastarfs Slysavarnarfélagsins Landsbjargar en sala á Neyðarkallinum er ein helsta fjáröflunun leið björgunarsveitanna og tryggir meðal annars endurnýjun á búnaði, og áframhaldandi þjálfun björgunarfólks um land allt.
Við erum afar stolt að Elliðaárnar hafi fengið að koma að þessu mikilvæga verkefni og þegar gestir mæta á skrifstofu SVFR tekur glæsilegur straumkall á móti þeim.