Minning um Friðleif Ingvar Friðriksson

Kveðja frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur

Árnefndir eru mikilvægur þáttur í samfélagi Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Þar veljast saman menn og konur sem vilja láta gott af sér leiða innan félagsins. Hlutverk árnefnda er að vera tengiliður stjórnar SVFR við veiðiréttareigendur og vera ráðgefandi um framkvæmdir á svæðinu.

Friðleifur var svo sannarlega einn af þessum dýrmætu félagsmönnum. Hann sat í árnefnd Sogsins frá árinu 1980 og átti þar góðar stundir ásamt félögum og fjölskyldu. Árnefndin var í góðu sambandi við landeigendur, þar sem ríkti traust og vinátta. Með félögum sínum til meira en 40 ára, þeim Gísla, Óla og Guðmundi, átti Friðleifur stóran þátt í að gera svæðið aðlaðandi og aðgengilegt fyrir félagsmenn.

Þegar ráðist var í að byggja nýtt hús í Bíldsfelli voru það ófá handtök árnefndarinnar sem skiptu sköpum í húsbyggingunni. Friðleifur þekkti alla leyndardóma Sogsins, hvort sem var um lax eða bleikju að ræða. Hann var iðinn veiðimaður og þar af leiðandi nokkuð fiskinn. Friðleifur hlaut Veiðivonsbikarinn árið 1997 fyrir stærsta flugulaxinn sem veiddur var á svæðum félagsins – sextán punda lax sem hann landaði við Tunnuna í Alviðrulandi á rauða Frances-túbu nr. 1″.

Kraftar Friðleifs nýttust einnig vel í Kastnefnd SVFR, þar sem ungir og aldnir lærðu að kasta flugu, fyrst í Laugardalshöllinni og svo síðar í TBR húsinu. Margir félagsmenn eiga honum og félögum hans það að þakka að geta kastað flugu fyrir fisk.

Sem tengiliður stjórnar við árnefnd Sogsins var ég einu sinni þeirrar gæfu aðnjótandi að vera boðin í mat til árnefndarmannanna í Bíldsfellið. Þetta var á fallegum, stilltum haustdegi; stráin farin að gulna og loftið kalt og tært. Ég keyrði upp að veiðihúsinu, fann matarlyktina í loftinu og heyrði hlátrasköllin út á bílastæði. Þetta varð eftirminnileg kvöldstund þar sem ég fékk að sitja með reynsluboltum Sogsins, hlusta á veiðisögurnar, borða góðan mat og finna vináttuna og kærleikann í hópnum.

Þeir sögðu mér söguna af því þegar þeir, á síðasta veiðidegi Bíldsfellsins, 28. september 2004, nær tvöfölduðu veiðitölur sumarsins á einum degi. Í bókinni höfðu verið skráðir 57 laxar, en að deginum loknum voru þeir orðnir 93 – heilir 36 laxar veiddust þennan dag. Þegar þeir segja þessa sögu birtist hún ljóslifandi fyrir manni; inn á milli rok-hlæja þeir, því eins og þeir sögðu sjálfir, þá hafi þetta verið lyginni líkast.

Friðleifur hlaut, ásamt félögum sínum, silfurmerki félagsins árið 2013.

Stangaveiðifélagið þakkar Friðleifi I. Friðrikssyni, félaga nr. 68, ómetanlegt starf hans í gegnum tíðina.

Farðu vel, félagi.

Fyrir hönd Stangaveiðifélags Reykjavíkur
Ragnheiður Thorsteinsson, formaður

 

Friðleifur Ingvar Friðriksson verður jarðsunginn í dag, 12. júní í Grafarvogskirkju kl. 13.00.

By Hjörleifur Steinarsson Fréttir