Kveðja frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur

Genginn er félagi nr. 11.
Gylfi Pálsson var ötull talsmaður verndunar Elliðánna. Hann var veiðivörður í ánum í kring um 1960. Þar sem eitt af verkefnunum var að flytja laxa með vöruflutningabílum upp yfir stíflu og sleppa í Fjárhúsahyl. Gylfi hafði mikla þekkingu á ánum og hafði gaman af að miðla henni og þá gjarnan til ungra veiðimanna.

Hann var ritstjóri Veiðimannsins, málgagns Stangaveiðifélagsins á árunum 1994 til 2001, þar birtust margar áhugaverðar greinar og hafði Gylfi sérstakan hæfileika í að þefa uppi góðar veiðisögur og á þar nokkrar sjálfur sem prýða blaðið. Gylfi var sæmdur silfurmerki og háttvísisverðlaunum SVFR óeigngjarnt starf í þágu SVFR í gegn um tíðina. Hann var stangó maður.

Gylfi lét til sín taka í þegar kom að hagsmunum veiðimanna, sat í stjórn Landssambands stangaveiðifélaga á árunum 1978 til 1986 og var þar formaður um árabil. Hann var formaður Ármanna 1981-1985.

Ég kynntist Gylfa árið 2007 þegar við vorum spyrt saman í verkefni sem stjórn SVFR hratt af stað til að halda utan um sögu félagsins. Gylfi Pálsson var beðinn um að taka viðtöl við 8 valinkunna veiðimenn og konur sem höfðu komið við sögu Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Við Gylfi ásamt Einari Rafnssyni unnum að þessu í í tæp tvö ár, en þá var verkefnið sett á ís. Nú hefur rykinu verið dustað af upptökunum og hluti afrakstursins kominn á vef SVFR, félagsmanna til að njóta. Gylfi skilur eftir sig ómetanlegar heimildir fyrir Stangaveiðifélag Reykjavíkur. Það var gaman að vinna með Gylfa hann var glæsilegur maður með rödd sem engum gleymist.

Gylfi snaraði vísu Bill Herricks rithöfundar Að leiðarlokum yfir á íslensku og fer vel á að kveðja góðan dreng með þessum orðum.

Árniðurinn er hljóðnaður,
vertíðin á enda.
Hinsta sinni set ég stengurnar
í skotið bak við hurðina.
Þótt ferlinum sé lokið
og ég selji veiðitækin
í hendur barna minna og vina
bý ég að góðum minningum
um stríða strengi og djúpa hylji
en framar öðru góða félaga
sem bíða mín neðar við ána;
handan næstu beygju.

Farðu vel kæri.

Ragnheiður Thorsteinsson
Formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur.

By Ingimundur Bergsson Fréttir