Gleði og glampandi sólskin í Elliðaánum

Fyrsti ungmennadagur sumarsins fór fram í blíðskaparveðri síðastliðinn sunnudag, 6. júlí, en það virðist vera orðin hefð fyrir glampandi sólskini þegar unga kynslóðin fær sviðsljósið í Elliðaánum. Sem betur fer eru krakkarnir lítið að spá í hinu fullkomna veiðiveðri, þarna eru þau einfaldlega mætt til að gera sitt besta, skemmta sér og reyna að krækja í fisk í leiðinni. Heilt yfir var veiðin nokkuð góð en á degi sem þessum eru tölurnar sjálfar aukaatriði því oftar en ekki er mesti lærdómurinn fólginn í að standa við árbakkann og æfa sig í þolinmæði. Seigluna þarf jú að æfa eins og annað og það þýðir lítið að gefast upp þótt á móti blási. Gaman er frá því að segja að tveir ungir kappar upplifðu stóra stund á síðdegisvaktinni þegar þeir lönduðu sínum fyrsta laxi.

Dagurinn var sérlega vel heppnaður í alla staði og Mikael Marinó, formaður ungmennafélagsins, og hans aðstoðarmenn eiga stórt hrós skilið fyrir gott skipulag og flotta umgjörð. Þá þökkum við þátttakendum og þeirra fylgdarmönnum kærlega fyrir komuna.

Ungmennadagar félagsins njóta vaxandi vinsælda en aldrei hafa borist fleiri umsóknir en í ár og ljóst að þörf var á að bæta við þriðja deginum. Seinni tveir dagarnir fara fram 10. og 11. ágúst og við hlökkum til að taka á móti enn fleiri hressum krökkum þegar þar að kemur. Á meðan sum börnin hafa mætt árum saman er önnur að mæta í fyrsta skipti en það sem breytist ekki er að þetta er alltaf jafn skemmtilegt!

Það eru forréttindi að fylgjast með yngstu meðlimum félagsins vaxa og dafna í gegnum veiðina á ungmennadögum og við erum afar lánsöm að geta boðið þeim upp á jafn stórkostlega laxveiðiá og Elliðaár – inni í miðri borg. Við leyfum myndunum hér að neðan að tala sínu máli.

Ragnar Ingi, 10 ára, alsæll með maríulaxaorðuna sína.
Agnes, 13 ára, sýndi flotta takta í Efri Mjóddum.
Sturri Hrafn, 16 ára, var Ágústi Þór, 13 ára, til halds og trausts þegar þessum fallega laxi var sleppt í Kerlingaflúðum.
Þórólfur Snær, 12 ára, fékk maríulaxinn sinn í Efri Breiðu.
Rósa Margrét, 14 ára, var ánægð með morgunvaktina.
By Eva María Grétarsdóttir Fréttir