Það var lífleg og góð stemmning í Korpu annan sunnudag aprílmánaðar þegar fyrsta veiðiferð ungmennastarfsins á árinu 2025 fór fram.
Þrátt fyrir vor í lofti var kuldi og rok og aðstæður nokkuð krefjandi en ungu veiðimennirnir létu veðrið ekki á sig fá og voru svo sannarlega tilbúnir að takast á við það sem koma skyldi. Nokkrir fiskar komu á land og einhverjir slitu sig lausa á síðustu stundu, svona eins og gengur og gerist, en óhætt er að segja að gleðin hafi verið í fyrirrúmi og dagurinn lærdómsríkur.
Seinni dagurinn í Korpu er svo rétt handan við hornið, á sunnudaginn kemur – 27. apríl, og verður fróðlegt að sjá hvað hann ber í skauti sér.
Við leyfum myndunum hér að neðan að tala sínu máli og hlökkum til að taka á móti fleiri framtíðarveiðimönnum á komandi vikum ☺️


