Frábærir ungmennadagar að baki í Elliðaánum

Þá er ungmennadögum SVFR 2025 lokið þetta sumarið. Í ár voru dagarnir þrír og fór sá fyrsti fram 6. júlí en seinni tveir 10. og 11. ágúst. Tekið var á móti rúmlega 100 börnum og gaman að sjá áhuga ungu kynslóðarinnar á stangveiði aukast ári frá ári.

Það var gleði, spenna og tilhlökkun í loftinu sl. sunnu- og mánudag þegar yngstu meðlimir félagsins lögðu leið sína í Elliðaárnar. Fínasta veður, svona að mestu leyti, stemmningin frábær og líf og fjör í ánum. Krakkarnir sýndu glæsileg tilþrif oft á tíðum og voru ansi lunkin við að setja í fiska þó öllu erfiðara hafi reynst að landa þeim en það er önnur saga. Veiðin var nánast hnífjöfn báða dagana en ekki skakkaði nema einum fiski á milli daga og í heildina náðust 13 á land (samkvæmt veiðibók), þarf af tveir maríulaxar, og mátti vel við una enda ekkert sjálfgefið í veiðinni. En þegar öllu er á botninn hvolft er það samveran við árbakkann sem upp úr stendur og dýrmætar minningar sem skapast um leið með þeim sem standa manni næst.

Til að viðburður sem þessi verði að veruleika þarf gott fólk til og við kunnum svo sannarlega að meta þá sem eru tilbúnir að bjóða fram krafta sína í þágu ungmennastarfsins. Við viljum nota tækifærið og koma á framfæri sérstökum þökkum til allra sem lögðu hönd á plóg, sér í lagi Mikaels Marinó Rivera sem stóð vaktina alla þrjá dagana og sá til þess að allt gengi smurt fyrir sig.

Takk fyrir komuna öll sem eitt – sjáumst aftur að ári liðnu 😊

Elma Ísaksdóttir, 11 ára, alsæl með maríulaxinn sem kom á land í Hólshyl á svartan Frances #18.
Rafael Logi Sigurðsson, 6 ára, var kátur á sínum fyrstu ungmennadögum.
Día Karen Fjölvarsdóttir, 10 ára, er efnileg veiðikona.
Daði Ragnarsson, 12 ára, landaði 63 cm. hryngu í Hrauninu sem tók Mop fly #16.
Jón Arnór Magnússon, 16 ára Akureyringur, var mjög sáttur með daginn.
Hrafnhildur Sigurðardóttir, 13 ára, með glæsilega 60 cm. hrygnu úr Símastreng.
Hilmir Sigurðsson, 7 ára, var hvergi banginn út í á.
Axel Logi Andrason, 16 ára, með annan af tveimur löxunum sem hann landaði.
By Eva María Grétarsdóttir Fréttir