Undirbúningur vegna næsta veiðisumars er í fullum gangi á skrifstofu SVFR, þar sem ýmis verkefni eru á dagskrá. Úthlutun veiðileyfa í Elliðaánum vegur þar þyngst, en á undanförnum árum hefur orðið algjör sprenging í fjölda umsókna og færri komist að en vildu. Í sumum tilvikum hefur fjöldi umsókna um tilteknar vaktir verið tífalt meiri en stangirnar í boði, til dæmis á morgunvöktum um miðjan júlí. Úthlutun leyfanna hefur farið fram með slembivali, þar sem tölva dregur úr innsendum umsóknum að viðstöddum félagsmönnum.
Samhliða aukinni aðsókn hefur skapast lífleg umræða um úthlutunarreglur og umgjörð veiðanna: hvernig tryggja megi jafnræði félagsmanna, hvort veiðileyfi til kornabarna séu eðlileg, hvort veiðivarsla sé nægileg o.s.frv. Í ljósi þessa hefur stjórn SVFR ákveðið að gera nokkrar breytingar í næstu úthlutun.
Veiðitímabilinu verður nú skipt í vikur og félagsmenn sækja því um þá viku sem þeir vilja veiða í Elliðaánum, í stað þess að sækja um tiltekinn dag líkt og áður. Slembival mun síðan ráða hvaða dag umsækjandi fær innan þeirrar viku og hvort hann veiðir fyrir eða eftir hádegi.
Sett verður 12 ára aldurstakmark á umsóknir, en í staðinn verður barnadögum fjölgað og börnum boðið að veiða endurgjaldslaust á fleiri ársvæðum félagsins, t.d. í Korpu, Leirvogsá og Langá, auk Elliðaánna.
Einnig verður lögð sérstök áhersla á aukna veiðivörslu á komandi sumri, meðal annars með fjölgun veiðivarða og næturvörslu.
Opnað verður fyrir umsóknir í Elliðaárnar þann 10. desember nk. og verður hægt að sækja um fram til áramóta. Má búast við mikilli eftirspurn, enda hefur félagsmönnum í SVFR fjölgað verulega á undanförnum árum og áhuginn á veiði í þessari náttúruperlu Reykjavíkur fer sífellt vaxandi.