Áramótasprenging í umsóknum um veiðileyfi

Gífurleg aukning varð milli ára á umsóknum um veiðileyfi hjá SVFR eða um 40%. Hugsanlega hefur umsóknartímabilið, sem stóð frá 10. desember til áramóta, hentað félagsmönnum betur en áður þegar umsóknartímabilið var fyrr í desember og margir uppteknir í jólastressi. Þó er vert að taka fram að nýjum félagsmönnum fjölgaði ört í nóvember og desember sem hefur líka haft sitt að segja.

Sem fyrr eru það Elliðaárnar sem tróna á toppnum sem vinsælasta ársvæðið en að þessu sinni voru rúmlega 1500 félagsmenn sem sóttu um leyfi, þar af um 1300 á laxveiðitíma og um 200 í vorveiði. Næst á eftir Elliðaánum koma svo Korpa og Leirvogsá. Það er því ljóst að borgarárnar njóta mikilla vinsælda meðal félagsmanna SVFR enda frábært að geta rennt fyrir lax og silung án þess að ferðast langt. Að auki eru borgarárnar í mjög góðu ástandi og hafa verið að skila frábærri veiði per stöng síðustu ár. Dregið verður úr umsóknum með slembivali þar sem allir umsækjendur með gilda umsókn eiga jafna möguleika.

Eftirspurnin eftir veiðileyfum í Elliðaárnar er tvöfalt meiri en framboðið, sem þýðir að aðeins um helmingur þeirra sem sóttu um komast að. Dregið verður úr umsóknum þar sem allir umsækjendur eiga jafna möguleika og slembival mun því ráða niðurstöðunni. Þetta er annað árið í röð þar sem eftirspurn er meiri en framboð í árlegri úthlutun SVFR og sannarlega til marks um aukinn áhuga á Elliðaánum.

Raunar er aukinn áhugi greinilegur á fleiri veiðisvæðum, því umsóknum fjölgaði á öllum ársvæðum SVFR, og fljótlega verður ljóst hvar laus leyfi verða til úthlutunar að lokinni vinnslu. Við stefnum að því að klára alla úrvinnslu í janúar og boða til dráttar þar sem fleiri en einn hópur sækist eftir sömu dagsetningu. Í byrjun febrúar ætti að liggja fyrir hvaða leyfi standa eftir og í kjölfarið hefst almenn sala í gegnum vefsöluna.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur þakkar félagsmönnum sínum kærlega fyrir umsóknirnar. Þar sem umsóknarfresturinn rann út 31. desember sl. verður ekki tekið við fleiri umsóknum. Frekari fréttir um framvindu mála munu berast samhliða úrvinnslu á næstu dögum og vikum. Í millitíðinni hvetjum við félagsmenn til að setja sig í samband við skrifstofuna ef einhverjar spurningar vakna.

Gleðilegt nýtt ár!

By Ingimundur Bergsson Fréttir