Minning: Þorleifur Kamban Þrastarson

Tolli við veiðar

Í dag, föstudaginn 28. nóvember, kveðjum við Þorleif Kamban Þrastarson, félaga í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur til áratuga. Þorleifur ólst upp við bakka Elliðaánna og var þeim tengdur frá fyrstu skrefum. Þar lærði hann að kasta, þekkja strauma, lesa náttúruna og þar kviknaði ástríða sem fylgdi honum alla ævi.

Þorleifur, eða Tolli, eins og hann var alltaf kallaður var grafískur hönnuður með einstakan smekk, hlýr maður með léttan húmor og gott nef fyrir sögum. Tolli steig inn í útgáfu Veiðimannsins og ásamt vini sínum, Tryggva Þór Hilmarssyni hönnuði, kom hann tímaritinu á nýja braut á árunum 2012–2020.

Tolli sá fyrir sér að tímaritið væri ekki aðeins prentverk, heldur lifandi vitnisburður um veiðimennsku, félagsskap og menningu. Þekking hans á stangveiði, ljósmyndun og fagurfræði átti stóran þátt í að móta nýtt útlit og færa Veiðimanninn aftur í það að vera félagsrit með áherslu á vandað efni. Hann lagði metnað og ástríðu í hvert smáatriði og það sást.

Tolli var mikið náttúrubarn; hann átti heima í veiðilendum landsins, hvort sem það var með fjölskyldu, vinum eða þegar hann var að leiðsegja öðrum. Hann skapaði ró í kringum sig og hafði gott auga fyrir fólki og umhverfinu.

Þorleifur verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Reykjavík kl 12:00.

Við í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur erum þakklát fyrir framlag Tolla og er hans er sárt saknað. Fjölskyldu og vinum hans sendum við innilegar samúðarkveðjur.

By Ingvi Örn Ingvason Fréttir