Ingvi Örn ráðinn til SVFR

Ingvi Örn ráðinn til SVFR.

SVFR fagnar því að Ingvi Örn Ingvason hefur verið ráðinn á skrifstofu félagsins og mun hefja störf í vikunni. Ingvi mun sinna markaðsmálum, sölu og þjónustu og bætist þar með í öflugt teymi starfsmanna félagsins. Hann hefur víðtæka reynslu af sölu- og markaðsstörfum og hefur starfað hjá Skeljungi, Bílaumboðinu Öskju og nú síðast sem markaðsstjóri Porsche og KGM á Íslandi. Hann er viðskiptafræðingur að mennt og með framhaldsmenntun í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum.

Ingvi er enginn nýgræðingur þegar kemur að stangveiðiheiminum og var alinn upp við bakka Langár á Mýrum, en fjölskylda hans var leigutaki þar áður fyrr. Hann er liðtækur veiðimaður og hefur starfað við veiðileiðsögn á sumrin undanfarin 25 ár í sinni heimaá, Langá, og er því vel kunnugur starfsemi SVFR. Þar hefur hann aflað sér dýrmætrar reynslu og þekkingar á starfsemi félagsins sem mun koma sér að góðum notum í nýju starfi.

„Ég er virkilega ánægður með að hefja störf hjá SVFR, félagi sem ég þekki vel sem veiðimaður og leiðsögumaður. Ég hlakka til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins og efla stangveiði um land allt.“ segir Ingvi Örn.

Við hjá SVFR bjóðum Ingva Örn hjartanlega velkominn til starfa og hlökkum til samstarfsins!

By Ingimundur Bergsson Fréttir