Veiðifréttir vikunnar

Góðan daginn.

Nú er farið að síga á seinni hluta veiðisumarsins og tími stóru hænganna að renna upp.

Laxveiðin í sumar hefur verið með rólegra móti, silungsveiðin aftur á móti með ágætum.

Langá er komin í 444 laxa, veiðin frekar róleg en koma skot inn á milli. Mikið af fiski í ánni segja kunnugir og vonandi fer takan að glæðast.

Haukan er komin í 159 laxa, miklar aðgerðir hafa verið í gangi vegna eldislax og hnúðlax í ánni, nú er búið að setja upp girðingar við ós árinnar og einnig við ósinn upp við vatn til að hindra að fleiri eldislaxar/hnúðlaxar komist upp í ána eða vatnið.

Elliðaárnar eru á fínu róli, 556 laxar komnir í bók og mikið af fiski í ánum.

Korpa er komin með 90 laxa í bók, frekar rólegt þar.

Leirvogsá er að skríða í 200 laxa, slatti af laxi í ánni en léleg taka.

Sandá í Þistilfirði er á ágætis róli, 214 laxar komnir í bók og tími stóru krókódílanna að renna upp þar.

Flekkudalsá er komin í 47 laxa, frekar rólegt en vonandi að komandi rigningar hleypi smá lífi í veiðina.

Miðá í Dölum er komin í 35 laxa og rúmlega 200 bleikjur, þar vonandi fer að rigna til að hleypa smá lífi í þetta.

Gljúfurá er aðeins að rétta úr kútnum, það eru komnir 45 laxar og 50 sjóbirtingar í bók, besti tíminn framundan þar.

Laugardalsá er komin í 77 laxa, á fínu róli og góður tími fram undan í ánni.

Vatnsdalsá í Vatnsfirði er komin í 10 laxa og rúmlega 80 bleikjur, lítið orðið af fiski í neðri ánni en menn á vegum Nasf sem voru að skyggnast eftir eldislaxi sáu mikið af laxi í efri ánni, eins og það var orðað: pökkuð.

Flókadalsáin er ennþá í fanta gír í sjóbleikjunni, 551 bleikja komin í bók sem verður að teljast mjög flott veiði í þessari littlu á.

Þverá í Haukadal er komin í 10 laxa, eins og áður ítrekum við að menn skrái afla, nokkuð virðist vanta upp á skráningar.

Sandá í Þjórsárdal er enn ekki komin á blað með lax en nú fer besti tíminn þar að renna upp, eins og áður ítrekum við að menn skrái afla.

Gufudalsá státar af 6 löxum í bók og 453 bleikjum, fínasta veiði í Gufudalnum en frekar smá bleikja.

Brúará er komin í 2 laxa og rúmlega 50 silunga í bók, þar virðist einnig vanta upp á skráningar og hvetjum við veiðimenn til að skrá afla.

Laxá í Mývatnssveit er á lokametrunum, þar eru komnir 2570 urriðar í bók sem er flott veiði á besta urriðasvæði í heimi.

By Hjörleifur Steinarsson Fréttir