Í síðustu viku varð vart við eldislax í Haukadalsá og hefur nú þegar tekist að veiða níu einstaklinga. Niðurstöður sýnatöku verða kynntar á næstu dögum og munu skýra hvaðan laxarnir sluppu, en talið er líklegt að þeir eigi uppruna sinn í sjóeldi á Vestfjörðum.
Um helgina fóru sjálfboðaliðar frá Verndarsjóði Atlantshafslaxins (Nasf), ásamt landeigendum að ánni, niður á neðsta svæðið í Haukadalsá. Þar náðist einn eldislax, tæplega 90 sentímetra langur, auk um 80 hnúðlaxa.
Fyrir rúmri viku hafði einnig veiðst eldislax í Haukadalsvatni og telja sérfræðingar því að fleiri aðkomufiskar séu komnir inn í vatnakerfið.
Til að bregðast við ástandinu hafa kafarar frá Noregi verið kallaðir til og er gert ráð fyrir að þeir hefji störf seinnipartinn á morgun.
Ákveðið var að hindra göngu laxa upp í Haukadalsvatn og Þverá. Í gær var því komið fyrir grindum bæði við affall Haukadalsvatns og í Þverá, með aðkomu árnefndar og landeiganda.
Fylgst verður grannt með framvindu mála á næstu dögum og verður greint frá stöðunni þegar kafararnir hefja leit í ánni.
Við viljum færa sjálfboðaliðum okkar innilegar þakkir fyrir ómetanlega aðstoð og samstöðu. Þá eiga veiðimenn einnig sérstakar þakkir skildar fyrir skilning og stuðning í því erfiða ástandi sem skapast hefur við ánna.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá verkefni gærdagsins.
Með kveðju,
SVFR