Góðan daginn.
Laxveiðin er frekar tíðindalítil þessi dægrin, þó virðist veðrabreytingin í byrjun vikunnar ætla að hafa einhver áhrif á göngur og veiði.
Laxinn hrúgast inn í Elliðaárnar, 1294 laxar gengu upp teljara núna á viku, veiðin hefur einnig tekið kipp með vaxandi gegnd og veiðivænna veðri.
Leirvogsá er aðeins farin að sýna sínar réttu hliðar, veiðin á uppleið og töluvert af fiski að ganga í ána. Korpan er einnig að koma til og slatti af fiski að ganga, 257 fiskar í gegnum teljara á viku.
Sandá í Þistilfirði er á þokkalegu róli, meirihluti veiðinnar rígvænir 2 ára laxar og besti tíminn eftir.
Haukan er á uppleið eftir rólega byrjun en miklar hnúðlaxagöngur hafa þó spillt ánægju veiðimanna í þessari perlu, þetta er því miður raunveruleiki sem íslenskir veiðimenn þurfa að búa sig undir að lifa við annað hvert ár, vandséð hvernig hægt er að sporna við þessu.
Langá er heldur betur að taka við sér, veiðin á uppleið og menn að sjá mikið af fiski á neðri svæðunum, göngur í stækkandi straumi vonandi að skila sér.
Miðá er frekar róleg í laxinum en ágætis sjóbleikjuveiði hefur verið í ánni, áin er þó þekkt síðsumarsá.
Flekkan er róleg en fer vonandi að taka við sér, menn treysta á stórstreymi og laxagöngur í því.
Laugardalsá fer rólega af stað, göngur skila sér vonandi í stækkandi straumi.
Ágætis veiði er á urriðasvæðunum fyrir norðan, enginn vatnsskortur þar og allt gengur vel.