Afmælisgleði SVFR 16. maí

Við kveðjum veturinn og fögnum 86 ára afmæli SVFR með pompi og prakt föstudaginn 16. maí í Akóges salnum Lágmúla 4. Húsið opnar klukkan 19:30 og dagskráin hefst klukkan 20:00 með ávarpi frá formanninum okkar.

Kvöldið verður allt annað en rólegt en veislustjóri er enginn annar en Atli Þór Albertsson sem, ásamt sjálfum Halla Melló, mun sjá til þess að stuð, tónlist og hlátur verði í fyrirrúmi. Þeir félagar eru engir aukvisar og lofa bæði skemmtilegum sögum og veiðibröndurum.

Rolf Johansen & Co verða með kynningu á heitustu sumardrykkjunum milli 19:30-20:30 og að vanda verður Happahylurinn á sínum stað, troðfullur af glæsilegum vinningum – þar á meðal veiðileyfi í Langá.

Á staðnum verður glæsilegur bar svo enginn fari nú þyrstur heim auk þess sem boðið verður upp á léttar veitingar.

Þetta verður kvöld sem enginn vill missa af svo takið daginn frá og mætið með góða skapið.

Við hlökkum til að sjá ykkur!

By Hjörleifur Steinarsson Fréttir