Kveðja frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur
Gylfi Gautur var kosinn í stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur árið 2000. Hann sat í stjórn félagsins í tíu ár, þar af sem varaformaður í sex ár. Auk þess starfaði hann í fulltrúaráði félagsins í tvö ár og tók virkan þátt í störfum árnefndar Krossár. Á aðalfundi árið 2013 hlaut hann silfurmerki félagsins fyrir sitt mikla og óeigingjarna framlag.
Gylfi var öflugur stjórnarmaður, ekki síst vegna þekkingar sinnar á lögum — hann var lögfræðingur að mennt, útskrifaður úr lagadeild Háskóla Íslands. Þessi þekking nýttist félaginu afar vel, sérstaklega við samningagerð við hin ýmsu ársvæði. Hann var maður stillingar og friðar. Hann tók aldrei til máls nema að hafa eitthvað að segja — og þegar hann talaði, hlustuðu menn. Hann vildi að allir gengju sáttir frá samningsborðinu.
Gylfi hafði einnig einstakt lag á að létta andrúmsloftið. Hann var kraumandi húmoristi og oft gráglettinn í tilsvörum. Hann var vel lesinn í Íslendingasögunum, þekkti Laxdælu eins og lófann á sér og vitnaði gjarnan í hana á samningafundum, sérstaklega þegar á þurfti að halda.
Í lagadeildinni stofnaði hann með félögum sínum veiðiklúbb sem fékk hið eftirminnilega nafn Salmo juris — klúbbur sem margir telja bera eitt glæsilegasta nafn allra veiðiklúbba á Íslandi. Gylfi var duglegur veiðimaður og hafði einstakt lag á að fara sínar eigin leiðir innan veiðisvæða. Hann leitaði gjarnan á staði sem aðrir höfðu lítið veitt á og prófaði nýjar aðferðir þar sem fáir höfðu reynt áður.
Hann sagði sjálfur að hann hefði verið í fóstri hjá einum öflugasta veiðimanni landsins, Halldóri Þórðarsyni. Þaðan sagðist hann hafa fengið innsýn í nýjar víddir veiðimennskunnar — hulduheima sem hann bjó að alla tíð síðan.
„Ekki síst siðareglunum,“ sagði hann í viðtali við Veiðmanninn árið 2001, „sem fólust í því að sýna náttúrunni og náunganum tillitssemi, tileinka sér nægjusemi og vera ekki að böðlast um; taka því sem að höndum ber með jafnaðargeði. Sætta sig við aflabrest þegar illa gengur og kunna þá list að koma glaður heim úr hverri veiðiferð.“
Það var gott að vera í kringum Gylfa. Hann var stuðningsmaður allra góðra verka og lyfti andanum hjá þeim sem honum kynntust. Félagið þakkar Gylfa Gauti félaga nr. 201 innilega fyrir samfylgdina og það mikla, óeigingjarna starf sem hann lagði félaginu til.
Fyrir hönd Stangaveiðifélags Reykjavíkur,
Ragnheiður Thorsteinsson
Gylfi Gautur Pétursson verður jarðsunginn í dag, 8. maí í Grafarvogskirkju kl. 13.00.