Genginn er félagi númer 584.
Ef það er hægt að tala um samfélag veiðimanna sem veiðiheim, þá var það heimurinn hans Himma. Þar var hann eins og fiskur í vatni með allan sinn djúpa skilning á fluguköstum. Hilmar var nördaliðinu, í besta mögulega skilningi þess orðs. Hann var á kafi í veiðinördaheiminum. Hann var um tíma skólastjóri Fluguveiðiskóla SVFR, þar sem félagar nutu fagþekkingar hans á bökkum Langár. Hann var vottaður flugkastkennari frá The Fly Fishers International sem eru alþjóðleg samtök þeirra sem helga sig í því að vernda, efla og viðhalda fluguveiði. Í þeim samtökum eru bestu fluguveiðikastarar heims og bestu fluguhnýtarar heims og bestur flugukastkennarar heims og að sjálfsögðu er Himmi í þeim hópi. Hann var kennari að guðsnáð, og var alltaf tilbúinn að miðla af þekkingu sinni.
Undirrituð var svo heppin að komast á tvíhendunámskeið hjá Himma. Ég hitti hann upp við Hafravatn, þar sem hann beið eftir mér. Bíllinn hans sneisafullur af alls kyns veiðigræjum, vöðlum, skóm, stöngum, hjólum og línum, hann var nefninlega til taks fyrir veiðheiminn. Það gat komið útkall hvenær sem var og þá var vissara að vera tilbúinn. Ég setti saman tvíhenduna og þræddi línuna, hann tók stöngina og hristi hausinn, línan og stöngin áttu ekki saman að hans mati. Hann setti aðra línu á stöngina og við óðum útí Hafravatn. Mér fannst hann örlítið strangur en mjög þolinmóður og hann sá strax hvar skóinn kreppti, við þurftum að þjálfa mýktina. Á þessum tveimur tímum náði ég þokklegri færni og man að hann hrósaði mér fyrir það þegar mýktin skilaði mér þröngri lykkju í bakkastinu og línan lagðist eins og dregill út í vatnið. Það sem ég kann fyrir mér í tvíhenduköstum er Himma að þakka og ég mun minnast hans í hvert skipti sem ég næ góðu kasti með tvíhendunni. „Það þarf nefninlega að hafa sveifluna í lagi“ sagði Himmi.
Fyrir hönd félagsins þökkum við honum fyrir alla þá vitneskju og kunnáttu sem hann færði félagsmönnum okkar.
Hann var einstakur félagi.
Ragnheiður Thorsteinsson, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur.
Hilmar Þór Jónsson verður jarðsunginn í dag, 2. maí í Grafarvogskirkju kl. 13.00. Útförinni verður streymt beint – sjá hlekk hér.