Ungmennastarfið heldur áfram í apríl með tveimur veiðiferðum í Korpu

Ungmennastarfið fór fjörlega af stað í mars með tveimur skemmtilegum fluguhnýtingarhittingum í Rimaskóla. Mikael Marinó Rivera, sem hefur umsjón með starfinu, var alsæll þegar við náðum tali af honum og hafði þetta að segja:

„Það var ótrúlega gaman að sjá alla þá sem mættu í fluguhnýtingarnar hér í Rimaskóla en óhætt er að segja að framtíðin sé björt í veiðinni hjá þessum glæsilegu fulltrúum ungu kynslóðarinnar. Hittingarnir gengu afar vel og voru krakkarnir mjög áhugasöm að læra grunninn í fluguhnýtingum. Til urðu alls konar nýjar og áhugaverðar flugur sem eiga alveg pottþétt eftir að skila fiskum á tímabilinu sem er loksins hafið.“

   

Nú er hins vegar komið að næstu viðburðum en í apríl verður  farið í tvær veiðiferðir í Korpu og verður sú fyrri á sunnudaginn kemur, 13. apríl, en hin síðari sunnudaginn 27. apríl. Reglum samkvæmt er veitt á eina stöng í vorveiðinni í Korpu, frá klukkan 08:00-20:00, og verður fyrirkomulagið með þeim hætti að sex börn komast að hvorn daginn á úthlutuðum veiðitíma sem spannar tvo klukkutíma.

Skipting veiðitíma er sem hér segir:

  • 08:00-10:00
  • 10:00-12:00
  • 12:00-14:00
  • 14:00-16:00
  • 16:00-18:00
  • 18:00-20:00

Athugið að fullt er orðið á báða vorveiðidagana í Korpu. Einhver börn eru nú þegar á biðlista og verða þá í forgangi þegar kemur að vorveiðinni í Leirvogsá. Ungmennastarfið er fyrir 19 ára og yngri og ársgjaldið er 4.400 krónur. Hægt er að ganga í félagið hvenær sem er.

By Eva María Grétarsdóttir Fréttir