Ný fræðslunefnd SVFR kemur inn með krafti
Nýja fræðslunefndin mun standa fyrir áhugasömu og metnaðarfullu starfi í ár. Nefndin er skipuð öflugum einstaklingum sem hver um sig býr yfir mikilli reynslu og ástríðu fyrir stangveiði. Nefndina skipa þeir Hafsteinn Már Sigurðsson, Hrafn Ágústsson, Jakob Sindri Þórsson, Magnús Stefánsson, Ólafur Ágúst Haraldsson og Ólafur Tómas Guðbjartsson.
Fyrsta nördaveisla Stangó – Að lesa strauminn
Nördaveislur Stangó verða vettvangur fyrir þá sem vilja læra, ræða og njóta í kringum sameiginlegt áhugamál okkar. Fyrsta nördaveisla vetrarins verður þann 15. janúar á Ölver. Húsið opnar kl. 19:00, dagskrá hefst kl. 20:00 og stendur til kl. 22:15. Í boði verður spennandi dagskrá sem miðar að því að sameina fræðiþekkingu og skemmtun.
Kvöldið hefst á Skólabekknum. Í þetta sinn verður sannkallaður masterklass í vatnslestri þar sem Óli Caddis kennir okkur að finna silunga í straumvatni. Eftir það tekur við skemmtilegur spurningaleikur Makkersins með veglegum vinningi. Þá taka við panelumræður á léttu nótunum undir því skemmtilega heiti Kryddsilungurinn. Kvöldinu er lokað með happdrætti, sem þekkt er fyrir áhugaverða og eftirsótta vinninga.
Í Nördaveislum Stangó í vetur verður rætt um ýmis áhugaverð málefni, svo sem æti fiska, hegðun þeirra og búsvæði. Farið verður í fluguval og búnað ásamt fjölbreyttri skemmtidagskrá á léttu nótunum.
Við hvetjum allt veiðiáhugafólk að mæta og taka þátt – hvort sem það eru byrjendur eða aflaklær.