Barna-og ungmennadagar 2023, skráning hefst kl.12:00 í dag!

Í dag, 8. maí klukkan tólf á hádegi, opnum við fyrir skráningu á barna- og ungmennadaga 2023.

Um er að ræða tvo sunnudaga, annars vegar 9. júlí og hins vegar 13. ágúst, þar sem veitt er bæði fyrir og eftir hádegi og verða 16 pláss í boði á hverri vakt eða 64 í heildina.

Reglan fyrstur kemur, fyrstur fær gildir og skulu skráningar berast á svfr@svfr.is

*** Uppfært kl.20:15. Það er uppselt 9. júlí en nokkur laus pláss í boði fyrir og eftir hádegi 13. ágúst.***

Veiðin er fyrir félagsmenn 18 ára og yngri, sem geta veitt sjálfir, en barnið/unglingurinn þarf að vera skráður félagsmaður og hafa greitt félagsgjaldið. Félagsgjaldið er 5.400 kr og hægt er að óska eftir félagsaðild í gegnum vefinn okkar hér eða með því að hafa samband við skrifstofuna.

Vinirnir Sturlaugur Hrafn og Eyjólfur Flóki sáttir með gott dagsverk á barna- og ungmennadögum 2022.

Þeim foreldrum/forráðamönnum sem mæta er skylt að fylgja börnum sínum við veiðarnar, þó eingöngu til halds og trausts, en foreldrum er ekki leyfilegt að veiða. Reyndir leiðsögumenn verða á svæðinu og leiðbeina við veiðarnar en hafið í huga að ekki er um barnagæslu að ræða.

Vinsamlegast athugið að foreldrar þurfa að sækja um fyrir hönd barna sinna. Eins og áður sagði hefst skráning klukkan tólf á hádegi í dag, 8. maí, og lýkur á hádegi viku síðar þann 15. maí.

Seinast komust færri að en vildu svo við hvetjum ykkur til að vera í startholunum rétt fyrir klukkan 12:00 í dag!

Strekktar línur,
Skrifstofan

By Eva María Grétarsdóttir Fréttir