Veiðin hefst eftir viku!

Langþráð bið er loks á enda, veiðin hefst á miðvikudaginn í næstu viku. Eftir skrautlegan vetur geta veiðimenn loksins fengið langþráðan frið frá covid og eldgosum. Tvö svæði SVFR opna 1. apríl og eru það Leirvogsá og Varmá, báðar árnar eru þekktar fyrir góða sjóbirtingsveiði og verður gaman að sjá hvað fyrsti dagurinn gefur.

Leirvogsá
Það er mjög sterkur sjóbirtingsstofn í Leirvogsá og þeir geta verið afar vænir, á hverju ári
Mest er af sjóbirtingi í neðri hluta svæðisins en þeir hafa veiðst alveg upp að Maríuhyl, heitustu staðirnir eru Birgishylur, Brúargrjót, Gamla-Brú, Fitjakotshylur, Móhylur, Snoppa og Varmadalsgrjót.

Líkt og með Varmá þá er Leirvogsá viðkvæm á og er mjög mikilvægt að koma varlega að veiðistöðum, talsvert betur hefur gengið með púpum heldur en straumflugum.

Nánari upplýsingar um Leirvogsá

Varmá
Það sem er sérstakt við Varmá er að hún er alltaf hlý, hitastigið fer sjaldan undir 8° og er það mjög gott fyrir vorveiðina. Í ánni má finna allar tegundir íslenskra ferskvatnsfiska en þar algengast er að fá sjóbirting.

Besta veiðin á vorin er fyrir neðan þjóðveg og geyma flest allir staðir fiska. Góð veiði er á frísvæðinu fyrir neðan Gömlu-Stíflu, það er eiginlega einn samfelldur veiðistaður og gengur undir nafninu Bakkar. Fleiri góðir veiðistaðir á vorin eru Beygjan, Stöðvarhylur, Stöðvarbreiða, 16, 15, 13, 12, 8, 7, 6, 5, 4, 3, 2, og 1.

Athugið að Varmá er viðkvæm á og er gott að fara varlega að veiðistöðum og byrja með púpur frekar en straumflugur.

Nánari upplýsingar um Varmá 

Vefsöluna má sjá hér