Árið 2007 var því verkefni hrundið af stað af stjórn félagsins að biðja Gylfa Pálson um að taka viðtal við nokkra valinkunna félagsmenn sem komið höfðu komið við sögu Stangaveiðifélags Reykjavíkur.  Þetta verkefni var lagt til hliðar 2009, þegar ljóst þótti að fjármagn til gæluverkefna var að skornum skammti. Nú er búið að dusta rykið af þessum upptökum og hefur þetta orðið að sjálfboðaverkefni Einars Rafnssonar. Kosin var sú leið að stytta ekki viðtölin að neinu ráði, heldur að láta þau halda sér óbreytt. Enda koma þar fram verðmætar heimildir um horfna tíma.

Þau viðtöl sem birtast hér eru

Guðrúnu Thorlacius áður birt.

Guðrún var um langt árabil félagi nr. 1 í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur. Hún var mikilsmetin og dáð í okkar hópi. Hún var fyrsta konan sem skráði sig í SVFR haustið 1941 einungis 16 ára gömul. Var Guðrún því brautryðjandi í karllægum veiðiheimi. Hún var því félagsmaður í SVFR í 81 ár, en félagið var stofnað einvörðungu tveimur árum áður. Enginn félagsmaður hefur því lengur verið í SVFR. Faðir Guðrúnar, Einar Tómasson, kolakaupmaður og stórveiðimaður var ennfremur brautryðjandi enda meðal stofnfélaga SVFR þann 17. maí 1939.  Guðrún lést árið 2022.

Einar Prentari

Margir félagsmenn í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur kannast við Einar H. Guðmundsson undir nafninu Einar prentari. Hann er langreyndur stangveiðimaður og hefur vakið athygli sem snjall sögumaður á kvöldvökum félagsins og hefur oftar en einu sinni unnið til verðlauna fyrir fjörlegar frásagnir.  Einar lést 2024.

Halldór Þórðarson

Halldór Þórðarson var félagsmaður í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur í tugi ára. Lax og silungsveiði var hans lífstíll. Hann sat í stjórn SVFR í 15 ár, og tók þátt í störfum árnefnda á svæðum félagsins. Hann var óþreytandi að liðsinna veiðimönnum og ráðleggja þeim sem yngri voru. Halldór var sæmdur gullmerki félagsins fyrir störf sín í þágu þess. Hann var félagsmaður nr.2 þegar hann lést 2017

Jón G. Bald

Jón G. Baldvinsson hefur verið eitt þekktasta nafnið í heimi stangveiðimanna á undanförnum áratugum. Það má rekja til þátttöku hans í félagsstörfum og hagsmunagæslufyrir stangveiðimenn. Hann  var í árnefnd Laxár í Kjós 1969, Stóru-Laxár 1970-1983, í stjórn SVFR 1970-1974. Formaður skemmtinefndar 1974-1979, aftur í stjórn 1979-1992, þar af 6 ár sem formaður. Formaður fulltrúaráðs frá 1992 til 1997. Í Norðurárnefnd og formaður hennar frá 1995

Jón lagði mikið af mörkum viðundirbúning netauppkaupa í Hvítá í Borgarfirði. Þegar samningaviðræður netabænda í Hvítá og veiðiréttareigenda Borgarfjarðar virtust ætla að sigla í strand var leitað til Jóns. Hann lagði fram sáttatillögu sem varð grundvöllurþeirra samninga sem gerðir voru um uppkaup neta í Hvítá.

Þau viðtöl sem eru óklippt

Grímur Snælda

Í lok veiðidags mátti oftlega sjá hæglátan, lágvaxinn og þreklegan mann, nokkuð við aldur, halla sér fram á handriðið á gömlu brúnni ofan við Breiðuna í Elliðaánum og horfa niður í strauminn. Þetta var Grímur Jónsson járnsmiður sem fylgdist með fiskigöngum og aflabrögðum í ánum. Hann veiddi Elliðaárnar í sextíu ár, þekkir þær flestum mönnum betur og hefur orðið vitni að þeim breytingum sem orðið hafa á ánum og umhverfi þeirra í meira en hálfa öld. Grímur er höfundur Snældunnar hann lést árið 2012.

 

Ásgeir í Sportvörugerðinni

Ásgeir Halldórsson kann sögu stangasmíða sl. hálfa öld og þekkir þróun annarra veiðarfæra. Rétt er að krefja hann frásagnar um feril föður hans og Sportvörugerðarinnar í Blönduhlíð. Þess utan hefur Ásgeir veitt í mörgum ám og kann urmul veiðisagna. Ásgeir lést 2022.

Óla í Intersport

Margir nefna hann Óla Kr., sumir kalla hann enn Óla í Útilífi, aðrir hafa samsamað sig nútímanum og segja Óli í Intersporti. Í hugum enn annarrra er hann Óli Sogsins vegna þess að hann þekkir það betur en flestir aðrir.

Rósar Eggertsson

Rósar Eggertsson sat í mörg ár í stjórn SVFR og þótti skynugur og skjóthuga. Hann var fljótur að greina kjarnan frá hisminu sem var mikilvægt á fjölmennum fundum félagsins. Rósar lést 2020

Rafn Hafnfjörð

Rafn gekk í Stangaveiðifélag Reykjavíkur árið 1951 og hafði félags- númer nr. 9 þegar hann lést 2011. Hann var ætíð einn af dyggustu félögum félagsins og lagði því lið á margan hátt. Hann var listamaður með ljósmyndavélina og var duglegur að taka myndir á svæðum félagsins. Hann lagði til ógrynni ljósmynda í tímaritið Veiðimanninn og þáði aldrei borgun fyrir. Hann hlaut silfurmerki félagsins