Veiðin hefur byrjað heldur rólega í ár en veðurguðirnir hafa ekki verið okkur í liði.
Menn hafa samt verið að gera flotta veiði í Varmá og fengum við veiðiskýrslu frá félögunum Matta og Jóa sem voru við veiðar 4. apríl. Þeir lentu í allskonar aðstæðum. Þeir félagar byrjuðu við Teljara og veiddu sig niður að brú sem er um kílómetra fyrir neðan, hjá brúnni fengu þeir tvo flotta fiska og voru varir við fleiri.
Mesta veiðin kom töluvert neðar eða við Grímslæk, þar lönduðu þeir 8 fiskum og var þónokkuð af fiski þar. Fiskarnir tóku bæði púpur og straumflugur.
Veiðin í Leirvogsá hefur verið frekar strembin en veiðimenn hafa verið að setja í fiska afar ofarlega í ánni, vel fyrir ofan hina hefðbundnu veiðistaði. Áin hefur verið í miklum flóðum undanfarna daga en er komin í fínt vatn núna. Það verður gaman að sjá hvernig veiðin þróast næstu daga.
Í fyrsta skipti var vorveiði í Korpu leyfð en eins og með Leirvogsá hefur verið mikið vatn sem hefur gert veiðimönnum erfitt fyrir. Talsvert hefur veiðst af hoplaxi þar en einnig nokkrir sjóbirtingar. Við biðjum veiðimenn sem fara í Korpu um að fara afar varlega með hoplaxinn. Þetta á einnig við Leirvogsá.
Þið megið endilega senda okkur myndir og sögur af vorveiðinni ykkar og minnum við á að nota myllumerkin #varm #korp #leir og #SVFR.