Rok, sól, og sjóbirtingur

Þær Anna lea Friðriksdóttir og Dögg Hjaltalín fóru í Leirvogsá á mánudaginn og það voru vægast sagt erfiðar aðstæður. Sólin skein og norðanáttin blés köldu, það er ekki hægt að segja að þetta voru kjöraðstæður fyrir sjóbirtingsveiði en að gefast upp er ekki til í þeirra bókum.

“Það er eiginlega Ibiza stemming hérna við Leirvogsá” sagði Anna Lea í samtali við veiðiumsjónina og hló. Hún fékk góð ráð sem áttu eftir að nýtast þeim vel.

Þær eru báðar vel sjóaðar í fluguveiði en áttu erfitt á köflum með að kasta með vindinn í fangið, þær þræddu svæðið frá Neðri-Skrauta upp að Birgishyl. Dögg landaði fallegum sjóbirtingi í Litla-Streng, hann tók púpu sem var veidd andstreymis. Það var fisk að finna á fleiri stöðum en hann var tregur til töku. Sjóbirtingurinn er greinilega enn á sveimi í Leirvogsá en í aðstæðum eins og hafa verið síðustu daga þarf að hafa fyrir honum, það er best að nota litlar púpur, granna tauma og læðast að veiðistöðum til að styggja ekki fiskinn. Einnig hafa veiðimenn gert góða veiði með að labba á milli veiðistaða og kasta á alla álitslega staði, maður veit aldrei hvað leynist á bak við steina.

Ef þið hafið skemmtilegar myndir eða sögur frá svæðum SVFR endilega sendið á okkur á netfangið [email protected]