Opnun Laxár í Laxárdal

Þann 1. júní síðastliðinn hófst veiði í Laxá í Laxárdal. Það var búið að vera hlýtt fyrir norðan en það átti eftir að kólna all hressilega á þá veiðimenn sem stóðu vaktina í opnunarhollinu. Þennan fyrsta morgun var lofthiti lægri en vatnshitinn og það var kropp framan af morgunvaktinni. Rétt um hádegi fór að hlýna og þá fór fiskurinn að taka betur og náðust um 20 fiskar þann morguninn. Mest voru það fiskar um 60 cm en einnig nokkrir milli 30 – 40 cm sem er sjaldséð stærð í Dalnum.

Það var stíf suð-austan átt allan daginn sem gerði mönnum erfitt fyrir og vindurinn gruggaði Mývatn svo áin var orðin frekar lituð á efri svæðum uppúr kvöldmatarleytinu. Þó gekk seinni parts vaktin ágætlega og um 20 fiskum var landað.

Um nóttina snerist vindur í norðan og kólnaði mikið í Dalnum. Það rigndi með því og takan datt niður. Á laugardeginum skánaði veðrið aðeins og hlýnaði og fiskur fór að taka aðeins betur á ný. Samtals landaði hollið 57 fiskum. Mestmegnis var þetta fiskur frá 58 – 63 cm og flestir voru teknir á púpur. Öllum var þeim svo sleppt aftur og meira að segja var sett í einn þeirra tvisvar með klukkutíma millibili. Svo það gætu verið skemmtilegir tímar í vændum þegar hlýnar eftir þetta kuldakast sem nú stendur yfir.