Netin upp úr Ölfusá og Hvítá 2019

Í síðustu viku fór fram aðalfundur Veiðifélags Árnesinga en það félag er nokkurs konar regnhlífarfélag yfir veiðifélögum þar Eystra og hefur m.a. um málefni Ölfusár og Hvítar, sem og hliðarár þeirra, að gera. Eins og eflaust margir vita sem stundað hafa stangveiði á þessu svæði hefur netaveiðin í Ölfusá og Hvítá farið í taugarnar á veiðimönnum og veiðiréttarhöfum sem hagsmuna hafa að gæta í hliðaránum. Eðlilega eru menn pirraðir yfir því að veiðin dali í tæra vatninu á sama tíma og lax er drepinn í stórum stíl á leiðinni upp á hrygningarstöðvarnar. Fyrir löngu hefur verið sýnt fram á að stangveiddur lax er svo miklu verðmætari en netaveiddur en hefðin og sagan hefur verið með netabændum í liði. Og við skiljum það vel. En með breyttum tímum hlýtur að vera hægt að finna lausn sem allir geta unað við.

Hvað um það – á aðalfundinum var borin upp tillaga þess efnis að frá árinu 2019 verði bannað að leggja net á vatnasviðinu. Tillagan var samþykkt þrátt fyrir hávær mótmæli. Þeir veiðifélagsmenn sem töpuðu kosningu hóta nú að leita réttar síns fyrir dómstólum svo við verðum að bíða og sjá hvað verður. Eðlilega vilja þeir fá einhvers konar bætur fyrir sitt tekjutap og við vonum að hægt verði að finna farsæla lausn í þessu máli og að netin fari ekki niður árið 2019.

Það sem þetta þýðir fyrir okkur hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur er að með þessum aðgerðum ætti laxgengd í Sogið að aukast svo um munar. Við erum leigutakar að einu stórkostlegasta fluguveiðisvæði landsins í Soginu fyrir landi Bíldsfells. Við erum einnig umboðssöluaðilar að Alviðrusvæðinu, því fornfræga stórlaxassvæði og Þrastarlundi, sem er frábært einnar stangar svæði við þjóðvegsbrúna yfir Sogið. Hér á árum áður var slegist um daga á öllum þessum svæðum, þá sérstaklega Alviðru og Bíldsfelli. Veiðin undanfarin ár hefur dalað og vinsældir svæðanna sömuleiðis. Það er jú einu sinni þannig að þó við segjum alltaf að það sé náttúran, kyrrðin og félagsskapurinn sem geri veiðina svona sérstaka þá er staðreyndin sú að það þarf að vera þokkaleg veiðivon áður en hægt er að njóta alls hins.

Við fögnum þessari ákvörðun og teljum að ef hún gengur eftir geti hafist fyrir alvöru hið mikla uppbyggingarstarf sem þarf til að t.d. ná upp þeirri frábæru veiði sem eitt sinn var í Soginu. Við hvetjum alla sem ekki hafa kynnst þeim töfrum sem Sogið hefur uppá að bjóða að prófa ána í sumar og sjá hvað það er sem aðdáendur árinnar eru að tala um. Verð veiðileyfa hefur lækkað mikið, húsakostur er stórkostlegur og töluvert er af öðrum fiski en laxi í ánni. Svo er það líka þannig að það þarf að stunda þetta til að ná upp veiðitölum.

Skoðið úrval lausra leyfa í Soginu með því að smella á hlekkina hér fyrir neðan:

https://www.svfr.is/voruflokkur/sog1/

https://www.svfr.is/voruflokkur/sog3/