Mikið líf síðustu daga á veiðisvæðum SVFR

Við fréttum af góðvinum okkar úr Flugukastinu Sigþór Steini Ólafssyni og Þorgils Helgasyni ritara hjá Flugur.is á veiðum í Varmá ásamt tveimur félögum í gærdag. Skruppu þeir í 3-4 klukkustundir og lönduðu þeir hátt í 30 fiskum. Meginþorri veiðinnar var geldfiskur um 35-40 sm en nokkrir á bilinu 50-58 sm. Kom það fyrir að veiðimenn voru með hann á 2-3 í einu og lenti Þorgils í þvi að hann fékk tvo fiska á í einu á dropper. Það var mikið líf og sjóbirtingurinn klárlega í fullu fjöri í ánni og það er það sem við erum að heyra, vorið lét aðeins bíða eftir sér.

Varmá í gær,,Hann er bara alltaf í því!”

Þannig fengum við einnig fréttir úr Leirvogsá á föstudaginn en þar eru einungis tvær stangir. Veiðimenn settu þar í 8 fiska og lönduðu fjórum. Sjóbirtingarnir voru í stærðum frá 60-70 sm. Helstu staðir voru Gamla brú, Neðri Skrauti og í Birgishyl en þar fékk einn veiðimaðurinn einhverja rosalegustu töku sem hann hefur fengið en það er búið að sjást til þeirra fiska þar og hafa veiðst upp í 80 sm birtingar í hylnum til þessa.

Silungasvæðið í Elliðaánum opnaði 1.maí og byrjaði veiðin þar rólega enda var einungis 3 gráðu hiti um morguninn þegar hún opnaði, þó veiddist eitthvað. Það hlýnaði um helgina og okkar dyggi félagsmaður Atli Bergmann “urriðahvíslari” skellti sér í gær og landaði 6 fiskum og tveir aðrir sem láku af. Fiskurinn kemur undan vetri í góðum holdum eins og sjá má á forsíðumyndinn en stærsti var 60 sm. Þetta er klárlega eitt vanmetnasta urriðasvæðið á landinu því þarna er hægt að fá flotta veiði í stærð og fjölda. Tilvalið að renna í “árnar” og upplifa ævintýri í höfuðborginni sem og þetta er ódýr kostur. Svæðið er tilvalið fyrir þá sem vilja kynnast andstreymis veiði “upstream” með tökuvara eða prófa “euronymphing” sem er sannarlega að ryðja sér til rúms meira og meira hér á landi. Seldir eru hálfir dagar í senn og einungis tvær stangir á svæðinu.

Veðurspáin er frábær í vikunni og má með sanni segja að vorið sé loksins komið. Það má nálgast lausa daga með því að haka í síur og velja sér veiðisvæði sem heillar HÉR á vefsölunni. 

Veiðikveðja

SVFR