36% aukning var á fjölda veiddra fiska í Laxá í Laxárdal í S-Þingeyjarsýslu á síðasta sumri. Um 650 urriðar komu á land og var meðalþyngdin með því hæsta sem þekkist í íslenskum ám, þar sem 82% veiðinnar var yfir 50 sm að lengd og 37% yfir 60 sm.
Veiðitölurnar eru sérstaklega áhugaverðar í ljósi þess að sókn í ánna var minni en fyrri ár, sem höfðu einkennst af nokkrum samdrætti í veiðinni. Eftirvæntingin fyrir komandi sumri er því mikil, enda vonast veiðimenn til að viðsnúningur til hins betra sé kominn til að vera og aðgerðir til verndar stofninum í ánni verði varanlegar.
Þetta er meðal þess sem fjallað verður um á kynningarkvöldi, sem Stangveiðifélag Reykjavíkur efnir til á föstudaginn kl. 20. Þar munu veiðileiðsögumennirnir Bjarni Höskuldsson, Hrafn Ágústsson og Ásgeir Steingrímsson fjalla um fiskinn í Laxárdal, þá einstöku stemningu sem skapast við stórfiskaveiðina í dalnum og gefa veiðimönnum góð ráð fyrir komandi sumar. Veiðileyfi verða á tilboðsverði, áhugavert veiðispjall verður í boði og efni til fluguhnýtingar fyrir byrjendur og lengra komna.
Bjarni Höskuldsson, veiðileiðsögumaður:
“Þeir veiðimenn sem kynnast Laxárdalnum falla algjörlega fyrir honum, enda er það einstök upplifunin að kljást við stóran og sterkan urriða. Ég hef veitt og leiðbeint veiðimönnum í ánni í rúmlega 20 ár og á þeim tíma hefur mikil breyting orðið í veiðinni. Fiskurinn hefur stækkað mikið, sem vegur svo sannarlega upp fjöldatöluþróun á tímabilinu. Það er óviðjafnanlegt að kljást við 65-70 sm urriða í straumvatni og ég vona að sem flestir veiðimenn fái slíkan draum einhvern tímann uppfylltan. Laxárdalurinn er besti staðurinn til þess.”
Kynningin á veiðisvæðinu í Laxárdal verður haldin í félagsheimili SVFR í Elliðaárdal. Hún hefst klukkan 20, föstudaginn 13. apríl, og er aðgangur ókeypis á meðan húsrúm leyfir.