Miðvikudaginn 20. júní var mikið um að vera. Þá opnuðu hvorki meira né minna en fjögur ársvæði á vegum SVFR. Elliðaárnar byrjuðu með látum þar sem 20 löxum var landað á opnunardaginn á 4 stangir. Það var ekki sama mokið í Haukadalsá né í Þverá í Haukadal. Samtals komu þar 6 laxar á opnunardaginn, fimm í Haukunni og einn í Þverá. En gleðin var engu að síður til staðar! Það var enn rólegra í Straumfjarðará þar sem veiðimönnum tókst ekki að landa neinum laxi á fyrsta degi.
Að kvöldi dags í gær voru komnir 18 laxar á land í Hítará og 20 laxar í Langá.
Framundan eru opnanir í Gljúfurá (25. júní), Korpu (27. júní) og svo enduropnanir (eftir silungatímann og smá pásu á milli) í Alviðru, Bíldsfelli og Þrastarlundi (24. júní). Samkvæmt teljurunum í Korpu og Gljúfurá er laxinn að skríða inn. Þrír laxar hafa gengið í gegnum teljarann í Korpu en hann er staðsettur í stíflunni við Korputorg. Svo eflaust er töluvert meira af honum í neðri hluta árinnar. Í Gljúfurá eru 19 laxar gengnir í gegnum teljarann.
Við látum þetta duga að sinni en höldum áfram að færa fréttir þegar upplýsingar berast í hús.