Veiðitölur og fréttir

Veiðin á svæðum SVFR hefur verið með ágætu móti í ár, veðurfar hefur verið mörgum svæðum gott en það hefur ekki verið skortur á rigningu eins og allir vita. Hér förum við létt yfir stöðuna í ánum.

Andakílsá – Uppseld

Ein eftirsóttasta áin hefur staðið fyrir sínu, veiðin er rólegri en síðustu ár en hefur verið mjög góð. Fiskurinn er vel dreifður um svæðið þó að hinir hefðbundnu staðir geyma alltaf mest af fiskum.
Síðustu tölur sem komu í hús voru 144 laxar á tvær stangir, nýjar vikutölur koma vonandi sem fyrst.

Elliðaár – Uppseldar

Hafa heldur betur staðið fyrir sínu í ár og eru að nálgast lokatölur síðasta árs (617). Talsvert er af fiski í ánum og eru hinir hefðbundnu staðir að gefa mest, gaman er að segja frá því að Höfuðhylur hefur verið afar sterkur í ár.
Síðustu tölur eru 581 á 6 stangir.

Flekkudalsá – Uppseld

Hefur notið góðs af rigningarsumrinu og hefur haldist í góðu vatni, það er talsvert meira af fiski á svæðinu í ár og stefnir Flekkan í ágætt meðalsumar.

Nýjustu tölur úr Flekkudalsá eru 91.

Flókadalsá Efri – Tvö holl til

Hefur verið heldur róleg en þó hafa verið góð skot, kuldi hefur sett strik í reikninginn þar og hafa stóru göngurnar ekki ennþá komið. Það er á hreinu að Flókadalsáin á töluvert inni fyrir haustið! Gaman að segja frá því að það hafa veiðst 3 laxar sem er mjög gott.
Laus holl í Flókadalsá má sjá hér.

Gljúfurá – Uppseld

Fór vel af stað og hefur verið ágætlega stöðug síðan, hún er ein af þeim ám sem hefur notið góðs af rigningunni og hefur áin haldist í góðu vatni.

Síðustu veiðitölur eru 171 laxar sem er mun betra en í fyrra (107). Seinnipartur sumars er að margra mati besti tíminn í ánni þannig við eigum von á að sjá Gljúfuránna fara yfir 300 laxa múrinn.

Gufudalsá – Uppseld

Veiðin á efri svæðunum hefur verið fín og hafa menn verið varir við nokkra laxa. Líkt og í Flókadalsánni hefur veðurfar sett strik í reikninginn og á Gufudalsáin örugglega inni nokkrar göngur.

Haukadalsá – Uppseld

Veiðin hefur verið frekar undir meðallagi í Haukunni en hefur verið frekar stöðug. Seinni partur sumars er oft virkilega skemmtilegur í Haukadalsá og vitum við að hún á talsvert inni.

Síðustu tölur eru 256, hún stefnir í svipaðar tölu og síðasta ár (447)

Korpa – Uppseld

Hefur verið afar góð í sumar og mikið er af laxi á svæðinu, fiskurinn er vel dreifður um ánna og hafa veiðimenn verið varir við laxa upp við Hafravatn. Korpan er uppseld í ár.
Síðustu tölur eru 155 laxar á 2 stangir, það lítur allt út fyrir að áin fara yfir heildarveiðina í fyrra (208).

Langá – Nokkur holl til

Veiðin í Langá er talsvert betri en í fyrra og er slatti af fiski í ánni, mikið vatn hefur sett strik í reikninginn en það er ekkert til að kvarta yfir. Fiskurinn er kominn upp á fjall og síðustu tölur 650 sem er talsvert betra en á sama tíma í fyrra (523). Hér má skoða laus leyfi í Langá. 

Laugardalsá – Nokkur holl til

Hefur verið betri en hefur einnig verið verri, áin er í 57 löxum en það hefur veiðst alveg hellingur af silungi sem er hinn besti matfiskur. Haustið er oft sterkt í Laugardalsánni og hún mun örugglega enda í svipaðri tölu og í fyrra (111).

Það eru nokkur holl laus í Laugardalsá, þau má skoða hér. 

Laxá í Laxárdal – Skemmtileg leyfi laus!

Dalurinn heillar og eru sífellt fleiri að falla fyrir honum, veiðin þar hefur verið virkilega góð og eru 70cm urriðar að vera mun algengari heldur en áður.

Við erum með spennandi holl 17-20 ágúst á 40% afslætti, ekki láta það framhjá ykkur fara – laus leyfi má skoða hér.

Laxá í Mývatnssveit – Nokkrir dagar til

Mývatnssveitin hefur verið á eldi frá opnun, opnunarhollið sló met og hefur meðalstærðin aldrei verið betri. Margir vilja þakka veiða/sleppa fyrir það en það eru skiptar skoðanir.

Það eru ennþá lausar stangir í Mývatnssveitinni, þær má skoða hér.

Leirvogsá – Nokkrir dagar til

Er bókstaflega blá af laxi, áin er komin yfir heildarveiðina í fyrra (279). Fiskurinn er kominn upp um alla á og hefur veiðin undanfarið verið góð í gljúfrinu fyrir neðan Tröllafoss. Framundan er einn skemmtilegasti tíminn í ánni og getur veiðin í september verið ævintýranlega góð.

Nýjustu tölur eru 298 laxar. Laus leyfi má skoða hér.

Miðá í Dölum – Tvö holl eftir

Nýjasta viðbótin okkar hefur staðið sig vel, 104 kaxar eru komnir á land ásamt talsvert af bleikju. Vatnsskortur hefur ekki verið vandamál og eru ennþá að veiðast lúsugir laxar. Seinni hluti tímabilsins er oft skemmtilegur í Miðá og verður gaman að sjá hverju hann skilar,

Laus leyfi í Miðá má skoða hér.

Sandá í Þistilfirði – Eitt holl eftir

Sandá er þekkt fyrir stóra laxa og skemmtilega veiðistaði, hún hefur staðið undir sínu í sumar og hefur veiðin verið góð.

Sandá er komin í 200 laxa og er stór hluti af þeim eru stórlaxar.

Laus leyfi í Sandá.

Varmá – Skemmtileg leyfi til!

Veiðin hefur verið virkilega góð undanfarið í Varmá og er sjóbirtingurinn löngu mættur upp fyrir Reykjafoss og eru mjög vænir fiskar að veiðast. Við vorum að heyra af einum 82cm sem veiddist rétt fyrir ofan golfvöllinn – risi!

Hér má skoða lausa daga í Varmá.

Þverá í Haukadal – Uppseld

Þverá er alltaf frekar dularfull og vilja margir sem fara þangað ekki segja frá veiðinni, við höfum ekki fengið margar fréttir í sumar en þær fréttir sem við höfum fengið eru jákvæðar og það er slatti af fiski á svæðinu.

Að gefnu tilefni viljum við minna veiðimenn á að í Elliðaánum, Korpu, Leirvogsá og Þverá í Haukadal er rafræn skráning í veiðibók, ef þið hafið ekki skráð veiðina er ekkert mál að gera það núna – veiðibók.

By SVFR ritstjórn Fréttir