Hann Magnús Haukur var að veiða í Varmá í Hveragerði í fyrradag og sendi okkur skemmtilega veiðisögu.
Eftir að hafa séð veðurspána fyrir mánudaginn ákvað ég í fljótu bragði að bóka dag í Varmá, þar sem ég hafði heyrt að sjóbirtings göngur væru hafnar og veðurspá fullkominn í veiði. Þegar ég mætti um morgunin voru aðstæður æðislegar þó ögn meira vatn hefði mátt vera í ánni. En ekkert gerðist í veiðinni sjálfri þó hinum ýmsu aðferðum hafi verið beytt, og ekki hjálpaði til að sólin byrjaði að skína sínu bjartasta. Samt sem áður sá maður hópana af birting skjótast upp og niður ána frá stöðvarhyl niður að teljara, svo ég hugsaði mér að láta á reyna við hann, þar sem hann hefur reynst mér best. Eftir að hafa togað upp nokkra titti hugsaði ég með mér að nýta síðasta klukkutímann og veiða mig upp ána og reyna að fá einhvern ögn stærri en þumalputta.
Þegar ég var kominn örlítið fyrir ofan stað 14, þar sem mikið dýpi var í beygju ákvað ég að kasta þar enda mikið hrunið úr bakkanum og góður felustaður fyrir fisk. Eftir 7 köst var allt í einu rifið í línuna, en sleit sig lausan þar sem flugan var illa fest við tauminn. Svo ég setti sömu flugu undir og sá til þess að engin væri áhættan að öngullinn myndi losna, og Bingo! Tók strax aftur í hana en tók mjög grunnt. Hann brunaði upp beygjuna og gróf sig í bakkan hvað eftir öðru. Þennan ætlaði ég ekki að missa og tók þvi mjög rólega í hann, ætlaði mér að láta hann þreyta sig sjálfur með straumnum. Eftir tæpar 10 mínútur kemur hann loksins undan bakkanum og leyfir mér aðeins að finna almennilega fyrir honum. 7 mínútum seinna sé ég í kviðinn á honum og dreg hann inn í lítinn straum sem er þarna til hliðar. Hæst ánægður labba ég að honum og með hverju skrefinu fatta ég meir og meir hversu stór og feitur hann var, og tók eftir þvi að öngullinn rétt svo hékk í vinstra munnvikinu. Eftir að hafa dáðst af honum í smá stund fékk hann aftur líf og ég hélt deginum áfram. Rétt áður en fyrri vakt lauk setti ég í annan fyrir neðan teljara sem sleit sig á slaginu 13:00. Þannig þeirri vakt lauk á slaginu og ekkert meira fréttist af seinni vaktinni, þó sást í tvo 80-90cm dreka hangandi í stöðvarbreiðu. Eitt er fullvíst að þetta verður ekki síðasta skiptið sem ég veiði Varmá yfir há sumarið!
Það er á hreinu að sjóbirtingurinn er mættur í Varmá en við höfum heyrt af veiðimönnum sem veiddu afar vel í ánni síðustu helgi. Þá aðallega sjóbirting en einnig staðbundinn urriða.
Veiðileyfin í Varmá eru á afar hagstæðu verði og má sjá lausa daga hér.