Veiðin í Eldvatnsbotnum sumarið 2017

Þessa dagana detta veiðibækur sumarsins inn til okkar á skrifstofuna og það er alltaf bæði fróðlegt og skemmtilegt að kíkja aðeins í þær og renna yfir tölfræði sumarsins. Eldvatnsbotnar er eitt af sjóbirtingssvæðunum sem við bjóðum upp á en það er svæði sem fær kannski ekki mikla umfjöllun. Svæðið er stutt, veitt er á tvær stangir og innifalið í verði veiðileyfanna er afnot af skemmtilegu veiðihúsi.

Veiðisumarið 2016 var eitt það versta sem menn muna eftir í Eldvatnsbotnum og var í framhaldi af því ákveðið að sleppa skyldi öllum fiski í Eldvatnsbotnum. Markmiðið var að fá sem mesta hrygningu í gang en rannsóknir sýna að hrygningasvæði eru fá á svæðinu. Horft var til svæðisins neðar í vatnakerfinu, Eldvatns, þar sem vel hefur gengið að ná upp veiðinni með þessu fyrirkomulagi.

Sumarið 2017 voru skráðir í bók 124 fiskar í Eldvatnsbotnum á móti 71 árið 2016. Samtals 53 fleiri fiskum landað en ástundun var töluvert lakari í ár en í fyrra. Aftur voru skráðir í bók 7 laxar, eins og í fyrra en í ár fengust líka 2 bleikjur. Það skemmtilega var að báðar bleikjurnar voru nákvæmlega jafn langar og veiddust báðar á sama stað. Skráðir voru 115 urriðar, mest sjóbirtingar. Stærstu fiskarnir sem skráðir voru mældust 73 cm og svo annar sem áætlaður var 4,5 kg.

Það er von okkar að við náum að byggja upp þetta svæði á næstu árum með skynsamlegri veiðistjórn og mögulega aukinni fiskrækt þar sem reynt verði að bæta hrygningarskilyrði fyrir sjóbirtinginn. Það virðist allavega vera að virka mjög vel neðar í ánni en samtals voru skráðir til bókar 711 fiskar og þar af 24 sjóbirtingar yfir 80 cm. Það er sannarlega stórkostlegt afrek.

Við erum nú að vinna að því hörðum höndum að klára að skipuleggja næsta sumar svo við getum opnað fyrir úthlutun veiðileyfa til félagsmanna. Þar verða Eldvatnsbotnar á boðstólnum.