Þessa dagana er flott vatn í Varmánni, hitastigið flott og mikið um að vera. Tveir af helstu aðdáendum árinnar, Hrafn Hauksson og Ingólfur Björgvinsson, fóru saman til veiða í gær, sunnudaginn 29. apríl, veiddu vel og sendu okkur smá línu um stöðu mála.
Datt í hug að send þér fréttir úr Varmá. Var þarna í dag með Hrafni Haukssyni og veiddum við frá 8 og hættum um 3 en þá veðrið orðið leiðinlegt og við búnir að landa 19 fiskum og setja í marga og missa. Stærsti fiskurinn í dag car 79cm sjóbirtingshængur en mest var þó af smærri birtingi frá 50 til 60 cm. Fiskurinn er dreifur um alla á og fáir staðir sem gef örugga veiði nema í Stöðvarbreiðu en þar er enn talsvert af fiski, stórum bleikjum og birtingur í bland. Það marg borgar sig að ganga mikið og reyna líklega staði og alveg klárt að andstreymisveiði með púpum gefur mun betur en straumfluguveiði að öllu jafna. Það þarf að fara varlega um bakka og stundum nánast skríða að stöðum til að styggja ekki fiska.
Það er annars búinn að vera ágæt veiði í Varmá og Þorleifslæk hjá okkur félögum frá opnun og áberandi hvað mikið af stærri hrygningafiski er enn á svæðinu. Hann virðist vera dreifður um alla á fyrir neðan þjóðveg.
Geldbirtingurinn er á ferð um vatnasvæðið og skemmtilegt þegar mður hittir á hann þar sem hann tekur vel. Vatnið í ánni er líka búið að vera gott, helst til lítið fyrstu tvær vikur aprílmánaðar, ólíkt ástandinu í fyrra þegar miklir vatnavextir gerðu veiði erfiða. Nú hafa nokkrar góðar rigningar bætt í vatnið og gæti það varla verið betra.
Svo mörg voru þau orð. Þeir sem eru að fara til veiða í Varmá ættu að taka þessi orð til athugunar. Verið með smærri flugur, púpur og veiðið andstreymis. Ef sú tækni er ekki í vopnabúrinu hjá ykkur, íhugið þá að minnka straumflugurnar. Það er alls ekki alltaf raunin að sjóbirtingurinn hjóli í risa zonker straumflugur með þungum keilum og þess háttar. Oft getur slíkt styggt fiskinn, sérstaklega ef vatnið er mjög tært. Það er ekki skrýtið að birtingurinn taki betur í aðeins skoluðu vatni, þá er hann ekki eins var um sig og verður kærulaus. Veiðimenn verða að geta brugðist við breyttum aðstæðum í báðar áttir.
Gangið varlega með bökkum, sérstaklega ef vatnið er tært og himininn heiður. Stóri fiskurinn er erfiður við að eiga – það er ástæða fyrir því að hann er orðinn stór. Hægt er að skoða hvað er laust á næstunni með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan. Nú fer hver að verða síðastur að ná í rassgatið á þessum birtingum áður en þeir fara aftur til sjávar til að stækka. Það er ljóst að við eigum von á góðu þegar þessir boltar koma aftur tilbaka í haust. Góða skemmtun