Sog – Skýrsla árnefndar

Við höfum fengið til okkar skýrslu árnefndar úr Soginu fyrir sumarið 2017. Það er óhætt að segja að skýrslan er ekki mjög jákvæð þó hún sé vel unnin. Ef við byrjum á Bíldsfells svæðinu þá veiddust þar samtals 64 laxar, þ.e.a.s. Atlantshafslaxar. Það er minnsta veiði á svæðinu um árabil og ljóst er að aðgerða er þörf til að ná upp veiðinni sem áður var en 5 ára meðaltal áranna 2011 – 2015 var tæpir 242 laxar á ári en sem dæmi má nefna að árið 2010 veiddust 480 laxar á svæðinu.

Fjöldi kenninga er uppi um hvers vegna veiðin hefur verið að fara svona niður á svæðinu. M.a. netaveiði í Ölfusá, vorveiðin, útfallið, seiðasleppingar og flökt á vatnshæðinni svo eitthvað sé nefnt. Hvar skýringin liggur er erfitt að segja til um eins og er en settar voru nýjar reglur fyrir sumarið 2017 þar sem maðkur var bannaður. Var það gert í þeim tilgangi að mögulegt væri að sleppa löxum 70 cm og stærri en það var meiningin að slíkt væri oftar hægt ef laxinn tæki spún frekar en kokgleyptan maðk. Sitt sýnist hverjum um þessar aðgerðir en þegar veiðibókin er skoðuð virðist það vera svo að þetta hafi virkað því aðeins virðist vera sem svo að einn fiskur yfir 70 cm hafi verið drepinn. Sá veiddist í Útfallinu á 28 gr Toby og vigtaði sá fiskur samkv. bókinni 7,2 kg. Ef skoðuð er taflan um samband lengdar og þyngdar laxa kemur í ljós að líklega var sá fiskur 89 cm.

Bestu veiðistaðirnir 2017

Sumarið 2017 var besti veiðistaðurinn fyrir landi Bíldsfells Útfallið. Þar veiddust samtals 14 laxar í sumar. Næst þar á eftir með 10 laxa var Neðri – Garður. Sakkarhólmi skilaði 8 löxum og Efri – Garður 7 löxum.

Besti tíminn

Veiðin var nokkuð jöfn í júlí, ágúst og september en 2 laxar veiddust í júní, 20 í júlí og svo 21 í bæði ágúst og september.

Besta agnið

Spúnninn hafði betur en flugan í ár en samtals var 36 löxum landað á spún en 28 löxum landað á flugu.

Alviðra og Þrastarlundur

Á Alviðru voru færðir til bókar 2 laxar og 1 urriði. Enginn fiskur var færður til bókar í Þrastarlundi.

Aðgerðir til framtíðar

Það er öllum ljóst að eitthvað þarf að gera til að bregðast við ástandinu í Soginu. Það fyrsta sem við munum gera okkar megin er að opna ekki fyrir vorveiðina fyrr en 1. maí 2018 í stað 1. apríl eins og verið hefur undanfarin ár. Ástæðan fyrir þessu er sú að eitt aðal hrygningarsvæðið í ánni er á Bíldsfellsbreiðunni og þar vaða menn helst um og yfir við veiðar á vorin. Við viljum gefa seiðunum allavega þennan mánuð í viðbót til að klekjast úr hrognunum og ná sér áður en veiðitímabilið hefst. Við munum svo kalla til fundar með hagsmunaaðilum til að ræða aðgerðir til framtíðar í Soginu.

Sumarið 2018 munum við einnig lækka verð veiðileyfa í Bíldsfelli þrátt fyrir að við séum vongóð um hörku veiði árið 2018.