Sjóbirtingur

Nú þegar aðeins er tekið að líða á sumarið fer hugurinn óneitanlega að ráfa frá því að vera heltekinn af laxaveiki (e. salmon fever) yfir í að hugsa um tegundina sem tekur við af laxinum og kemur silfruð inn í árnar síðsumars og á haustin – sjóbirtingnum.

Hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur eru tvö svæði sem þekkt eru fyrir flottar sjóbirtingsgöngur og stóra fiska, Varmá og Eldvatnsbotnar. En það eru ekki allir sem vita að í Korpu er líka flott sjóbirtingsgengd en undanfarna daga hafa flottir sjóbirtingar verið að ganga í gegnum teljarann í stíflunni í Korpu.

Flottur birtingur að fara í gegnum teljarann í Korpu 15. júlí síðastliðinn.

Að sama skapi hefur sjóbirtingsgengd verið að aukast í Soginu undanfarin ár og hefur verið skemmtileg viðbót við laxveiðina þar. Það er alveg ljóst að birtingarnir eru farnir að ganga í árnar þó enn sé þó nokkuð í að stóru göngurnar fari að koma í árnar, samanber teljarinn í Korpu og sú staðreynd að veiðimenn í Varmá hafa verið að setja í boltabirtinga undanfarið.

Laus leyfi í Varmá í ágúst. 

Flottur 71 cm birtingur úr Varma nýverið.

Sjóbirtingurinn í Eldvatnsbotnum er snemmgenginn og þeir stóru mæta alltaf fyrstir þó þeir geti verið erfiðir við að eiga þegar sólin er enn hátt á lofti. Þá gildir að vera sniðugur og beita smáum púpum og löngum taumum og vera eins lítið sýnilegur og mögulegt er. Þegar veiðibókin úr Eldvatnsbotnum kom í hús síðasta haust kom í ljós að veiðimenn voru að fá lúsuga sjóbirtinga í ágúst þó flestir hafi þeir verið í kringum 50 cm.

Laus leyfi í Eldvatnsbotnum í ágúst. Í Eldvatnsbotnum er veitt á 2 stangir og fylgir huggulegt hús með. Stangirnar tvær eru seldar saman í tveggja daga hollum. Alls eru 5 rúm í húsinu.

Síðasta föstudag fór einn veiðimaður og reyndi fyrir sér í Varmá en sá er öllum hnútum kunnugur í ánni. Hann sagði að vatnið væri vel tært og fiskurinn styggur. Hann setti undir grennri, lengri taum og örsmáar púpur og þá fóru hlutirnir að gerast. Hann setti í 8 sjóbirtinga og einn vænan staðbundinn urriða. Hann náði þó bara að landa tveimur birtingum, 71 cm og 60 cm en sá staðbundni var 59 cm.

Við tókum nokkur holl í Tungufljóti í umboðssölu en aðeins eitt holl er eftir og það er þriggja daga holl 10. – 13. október. Þarna er veitt á 4 stangir og eru þær allar seldar saman. Stangardagurinn er því 40.000 kr. og fylgir veiðihús með.