Vorfagnaður SVFR laugardaginn 20. maí.

Það er komið að hinum árlega Vorfagnaði SVFR og ekki seinna vænna enda löngu komið sumar. Við ætlum að koma saman við höfuðstöðvar félagsins að Rafstöðvarvegi 14, laugardaginn 20. maí frá kl. 13 – 16 og vera með alveg hreint stórglæsilega dagskrá að venju.

Dagskráin er svohljóðandi:

  • Kl. 13 – 16 – Snarkandi pylsur á grillinu og ískalt gos fyrir gesti (meðan birgðir endast).
  • Kl. 14:00 – Kastkeppni á túninu. Valgarður Ragnarsson sölufulltrúi Loop á Íslandi fer yfir grundvallaratriði í fluguköstum og græjum. Veiðiflugur Langholtsvegi verða með græjurnar á staðnum. Viðstaddir geta síðan tekið þátt í kastkeppni. Keppt verður í karla og kvennaflokki.
  • Kl. 13 – 16 – Jóhannes Sturlaugsson frá Laxfiskum sýnir gönguseiði og verður með fræðslu um lífríki Elliðaánna.
  • Kl. 15:00 – Gengið meðfram Elliðaánum í fylgd með reyndum leiðsögumönnum, farið verður yfir svæðið frá Ullarfossi og niður að sjó.
  • Happdrætti – Allir sem mæta í dalinn fá happdrættismiða. Dregið verður úr þeim miðum sem verða á staðnum. Meðal vinninga eru stangir í opnun Elliðaánna!!

Við hvetjum alla til að mæta með góða skapið og ekki væri verra ef allir gætu lagst á bæn og beðið um það blíðskaparveður sem við höfum verið blessuð með undanfarin tvö ár.

Sjáumst mígandi hress á laugardaginn milli 13 og 16.