SVFR veitir umsögn um lagafrumvarp sem tengjast fiskeldi.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. SVFR hefur þegar framsent Alþingi umsögn sína, en hana má sjá í meðfylgjandi viðhengi. UMSÖGN SVFR (opnast í nýjum flipa).

SVFR hefur ávallt lagst gegn sjókvíaeldi við Íslandsstrendur enda sýna bæði rannsóknir sem og reynsla annarra þjóða sem stunda laxeldi í opnum sjókvíum að ýmsir smitsjúkdómar, sníkjudýr og slysasleppingar munu óhjákvæmilega skaða lífríki í ám og vötnum hér á landi. Er váin raunar meiri hér á landi þar sem heimilað hefur verið sjókvíaeldi á kynbættum laxi af norskum uppruna, einfaldlega vegna þess að norski laxinn er erfðafræðilega frábrugðinn íslenskum laxastofnum og erfðamengunin, sem er óhjákvæmileg, dregur úr hæfni villta laxins til að lifa af, fjölga sér, skemmir aðlögunarhæfni og eyðileggur ratvísina. Hin óhjákvæmilega genablöndun eldislaxs af norskum stofni við villtan lax mun valda óbætanlegu tjóni. Því er mikilvægt að vandað sé til verka og að skammtíma pólitískir hagsmunir verði ekki látnir ráða för. Að mati SVFR hefði verið mun eðlilegra að samin yrði ný heildarlöggjöf um fiskeldi, standi vilji Alþingis virkilega að skapa sátt um þessi mál og gæta að náttúruverndarsjónarmiðum.