Straumfjarðará til Stangaveiðifélags Reykjavíkur

Þann 1. nóvember voru undirritaðir samningar á milli Veiðifélags Straumfjarðarár og Stangaveiðifélags Reykjavíkur um leigu á veiðirétti í Straumfjarðará frá árinu 2018 til og með 2022. SVFR hefur nú þegar hafið sölu á veiðileyfum og skipulag fyrir næsta ár og eru allir áhugasamir hvattir til að hafa samband við SVFR til að bóka veiðileyfi í ánni sumarið 2018.

Straumfjarðará er ein af flottustu laxveiðiám landsins. Veitt er á 4 stangir á tímabilinu 20. júní – 20. september og hefur meðalveiði í ánni verið um 440 laxar á ári. Stórglæsilegt veiðihús er við ána en þar er svefnpláss fyrir 10 manns og boðið er upp á fulla þjónustu. Áin er aðeins 150 km frá Reykjavík og því stutt að fara ef farið er frá Reykjavík.

Við hjá SVFR fögnum því að búið er að ganga frá samningum um veiðiréttinn og gleðjumst yfir því að geta nú boðið félagsmönnum okkar og öðrum veiðimönnum veiðileyfi í þessari frábæru laxveiðiá.